Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari hefur rúman mánuð til stefnu til að ná lágmarki fyrir HM í Moskvu, stærsta mót sumarsins í frjálsum íþróttum.
Lágmarkið er 60 metrar en Ásdís hélt lengi vel að Íslandsmetskast hennar upp á 62,77 metra á Ólympíuleikunum í fyrra hefði tryggt henni farmiðann til Moskvu. Nýjar reglur kveða hins vegar á um að lágmörkum verði að ná eftir 1. október síðasta árs.
„Ég komst að þessu í apríl og það var frekar óþægilegt. Það er alltaf leiðinlegt að upplifa þetta lágmarkastress. Ég hef tíma til 29. júlí til að ná lágmarkinu, daginn eftir meistaramótið,“ sagði Ásdís í Slóvakíu í gær en hún varð í 2. sæti í spjótkasti í Evrópukeppni landsliða og kastaði 53,36 metra.
„Ég kom í mótið með næstbesta árangurinn og var því þannig lagað séð á pari. Ég átti samt að gera miklu betur. Ég er að vinna í ákveðnum tækniatriðum sem ég náði ekki upp að þessu sinni. Ég var bara ekki nógu góð, en nú er bara að fara heim og vinna hörðum höndum að því að gera betur. Ég er í hörkuformi og þegar ég næ tækninni saman þá kemur þetta.“