Haukur Magnússon fæddist á Brekku í Þingi, Austur-Húnavatnssýslu 1. september 1926. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 15. júní 2013.

Foreldrar hans voru hjónin Magnús Bjarni Jónsson bóndi í Brekku, f. 18.6. 1887, d. 17.5. 1962 og Sigrún Sigurðardóttir húsmóðir, f. 21.4. 1895, d. 8.2. 1981. Bræður Hauks eru Sigurður, f. 1915, d. 2000, bóndi á Hnjúki, Jósef, f. 1919, bóndi í Steinnesi, Þórir, f. 1923, bóndi í Syðri-Brekku, Hreinn, f. 1931, bóndi á Leysingjastöðum.

Hinn 14. desember 1957 kvæntist Haukur Elínu Ellertsdóttur, f. 27. febrúar 1927, frá Meðalfelli í Kjós. Foreldrar hennar voru Jóhannes Ellert Eggertsson og kona hans Karítas Sigurlína Björg Einarsdóttir ábúendur þar. Afkomendur Hauks og Elínar eru: 1) Magnús, f. 1959. Sambýliskona hans er Irene Ruth Kupferschmied. 2) Sigurlína Björg, f. 1960. Maður hennar er Ögmundur Þór Jóhannesson, synir þeirra eru a) Bjarni Egill, sambýliskona hans er Guðrún Elín Gunnarsdóttir, og b) Skúli Rafn, kærasta hans er Sólveig Kolka Ásgeirsdóttir. 3) Sigrún, f. 1962. Maður hennar er Sigfús Óli Sigurðsson, synir þeirra eru a) Karl Sigurður og b) Haukur Elís, sambýliskona hans er Fríða Marý Halldórsdóttir. 4) Guðrún, f. 1964. Maður hennar er Lárus Franz Hallfreðsson, börn þeirra eru a) Elín Inga og b) Einar Jóhann. 5) Guðmundur Ellert, f. 1969. Sambýliskona hans er Guðrún Friðriksdóttir. Börn Guðmundar Ellerts frá fyrra hjónabandi með Alexöndru Mahlmann eru a) Bergþór Phillip (stjúpsonur) og b) Líney Inga.

Haukur varð gagnfræðingur frá MA 1946, lauk kennaraprófi 1949 og stundaði viðbótarnám við Kennaraskóla Íslands og Háskóla Íslands árin 1952-53. Eftir námsdvöl í Englandi tók hann próf frá The Spawa School of English í Bournemouth 1954. Hann var kennari á Seyðisfirði 1949-50, á Patreksfirði 1950-52, við Breiðagerðisskóla í Reykjavík 1954-62 nema fimm mánuði veturinn 1955-56 er hann gegndi kennslustörfum í Kjósarhreppi. Haukur vann fjölmörg ár á skurðgröfum víða um land í sumarleyfum frá námi og kennslu. Hann var kennari við Barnaskóla Sveinsstaðahrepps 1962-69 og við Húnavallaskóla frá stofnun hans 1969 til ársins 1987. Haukur tók við búskap í Brekku af foreldrum sínum árið 1962 og bjó þar til 2010. Síðustu árin átti hann heimili á Blönduósi.

Útför Hauks verður gerð frá Þingeyrakirkju í dag, 24. júní 2013, klukkan 14.

Pabbi er fallinn frá og nú reikar hugur minn til baka. Það eru margar fallegar minningar sem koma upp í hugann. Pabbi hafði mikið að gera lengst af sinni starfsævi. Því eru margar minningarnar tengdar störfum sem hann var að inna af hendi og maður tók þátt í. Það er falleg minning þegar pabbi las jólasögu á aðfangadagskvöld á þeim árum sem ekki var komið sjónvarp. Ég man hvernig maður skottaðist á eftir honum þegar hann gaf fénu meðan enn voru torfhús. Reytti með honum hey úr stabbanum í tóftinni og hljóp fram garðana á eftir honum þar sem hann bar hneppin til ánna sem hann þekkti allar með nafni. Það var líka óskaplega gaman að fara með honum í Skólahúsið og þykjast vera nemandi fjögurra eða fimm ára gömul. Heiðarferðir að vori eru líka ógleymanlegar. Heiðarnar voru pabba mjög hugleiknar. Í mörg ár fór hann í heiðargöngur að hausti og kom þá þreyttur heim að kvöldi eftir nokkura daga fjarveru. En að morgni virtist hann vera úthvíldur og þá tóku við réttarstörf og heimrekstur. Þegar hann var hættur að fara sjálfur í göngur beið hann spenntur eftir sínum gangnamanni til að fá fréttir af hvernig göngur hefðu gengið.

Pabbi nýtti sum sín tæki til hins ýtrasta og fóru bílarnir hans ekki varhluta af því. Minnist ég sérstaklega ferða sem við fórum saman fram í heimaland haustið sem ég flutti aftur að Brekku. Þá þurftum við að komast fyrir hross. Keyrði pabbi á fleygiferð yfir mela og móa, holt og hæðir og hélt ég að dagar mínir væru taldir þarna en pabba fannst ég sýna óþarfa hræðslu. Sjálfur hræddist hann ekki neitt. Önnur ferð var farin þetta sama haust til að sækja lamb fram á Flóa. Þá fórum við fram Stóru-Giljárland og hann vildi koma mér yfir ána í Brekkuland. Það voru komnar ísskarir við bakkana á Giljánni en hann steypti bílnum niður brekkur og börð í Brunnárnesinu og loks langleiðina yfir ána þannig að ég komst upp á skörina Brekku megin. Síðan hélt hann til baka og ekki var nú ferðin minna glæfraleg þá. Bíllinn stóð ýmist upp á endann í brekkunum eða hallaði svo mikið út á hlið að maður var sannfærður um að hann myndi velta. Pabbi hafði ótrúlega næmni fyrir því hversu langt var hægt að ganga í svona glannaskap.

Strákarnir mínir voru mikið í sveitinni hjá afa sínum og ömmu sem börn og unglingar. Fylgdu þeir þá afa sínum við störfin. Það er þeim dýrmæt reynsla að hafa verið með afa sem stundum beitti sinni hrjúfu lund en var líka blíður og glettinn.

Síðan við hjónin fluttum að Brekku hefur verið ómetanlegt að geta leitað til pabba. Hann treysti okkur til að spjara okkur og valdi þá leið að hjálpa ef til hans var leitað. Það var svo margt sem ég gat spurt pabba um. Allt sem laut að búskapnum, um menn og málefni, um fólk og ættir þess eða hvernig hlutirnir voru í gamla daga. Oft þurfti maður ekki að spyrja því pabbi var mikill sögumaður og fróðleiksbrunnur.

Ég kveð föður minn með gleði yfir að hann hafi losnað frá þeim veikindum sem hann hrjáðu en ég kveð hann líka með söknuði og trega því enn var margt ógert og ósagt.

Sigrún.

Þegar samferðafólkið kveður leitar hugurinn gjarnan til liðins tíma. Á mínum uppvaxtarárum var margt um manninn í Brekku. Heimilisfólkið var á ýmsum aldri og kynslóðabilið ekki eins ríkjandi og nú er. Haukur var einn þeirra sem í mínum huga töldust til heimilisfólksins enda þótt hann væri ekki heima nema hluta úr árinu. Hann hafði ungur farið að heiman til að mennta sig og stundaði síðan kennslustörf á vetrum en kom heim í fríum og var oft í Brekku tíma og tíma á sumrin. Þegar Haukur dvaldist heima var hann sístarfandi. Þá eins og nú voru verkefni við búskapinn ærin og ætíð þörf fyrir vinnufúsar hendur til að sinna hinum ýmsu störfum. Haukur hafði alla tíð yndi af hrossum, átti góð hross og fór vel með þau. Hann var glöggur bæði á fé og hross. Það veitti mikilli gleði inn í minn barnshuga þegar ég fékk frá honum hryssu í stað þeirrar sem féll frá og að fá að koma á bak á Spari-Rauð – sem bar nafn með réttu – var sérstök upplifun.

Fyrstu árin eftir að Haukur lauk kennaraprófi kenndi hann á ýmsum stöðum auk þess sem hann dvaldi eitt ár við nám í Englandi. Um árabil kenndi hann svo í Reykjavík. Á þeim tíma dvaldi ég á heimili hans og Ellu þegar leiðin lá suður. Það var mikils virði fyrir ungling sem langaði til að fara í skóla fyrir sunnan að hafa gott heimili til að dveljast á.

Árið 1962 tóku Haukur og Ella við búskap í Brekku og bjuggu þar samfellt til ársins 2010, fyrri árin með blandað bú en síðar með fé og hross. Ásamt búskapnum kenndi Haukur fyrst í Skólahúsinu og síðan við Húnavallaskóla þannig að oft hefur eflaust reynt á iðjusemi og skipulag til að láta verkefnin falla innan þess tíma sem fyrir hendi var. Jafnframt því að sinna búskap og kennslu átti Haukur ýmis áhugamál og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar. Auk hestamennskunnar las Haukur mikið og var fróður um ættfræði. Hann hafði gaman af góðum vísum og kunni þær ófáar. Eflaust hefur hann átt létt með að setja saman vísu þótt hann flíkaði því lítt. Það var ekki hans háttur að berast á. Haukur var gestrisinn, hafði gaman af að setjast niður með gestum og spjalla. Hann var fastur fyrir og varð skoðunum hans á mönnum og málefnum lítt hnikað.

Um leið og ég þakka fyrir liðna tíð sendi ég hugheilar samúðarkveðjur til Ellu, Magnúsar, Lillu, Sigrúnar, Guðrúnar, Guðmundar Ellerts og fjölskyldna þeirra.

Sigrún Þórisdóttir.