Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Forsvarsmenn tveggja útgerða minni báta og fiskverkana segja að veiðigjöld, hið almenna og sérstaka, séu að sliga fyrirtækin. Hvort fyrirtæki um sig borgar um 30 milljónir í veiðigjöld á ári. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að vera burðarásar í atvinnulífinu annars vegar í Grímsey og hins vegar á Tálknafirði.
„Þetta er að ganga frá okkur,“ sagði Garðar Ólason í Grímsey, um veiðigjöld sem lögð eru á útgerð hans, Sigurbjörn ehf. Þar vinna 13-14 manns. Hann sagði að þeir hefðu átt að fá sjö milljónir til baka af 18-19 milljóna sérstöku veiðigjaldi vegna skuldastöðu fyrirtækisins. Sigurbjörn ehf. borgaði um 14 milljónir í almennt veiðigjald. Garðar sagði að lækkun á sérstöku veiðigjaldi á botnfisk, eins og boðuð væri í frumvarpi sjávarútvegsráðherra, myndi breyta miklu. „Þá verðum við áfram með rúmlega 14 milljónir á ári, sem okkur finnst bara nokkuð nóg.“
„Við stöndum engan veginn undir veiðigjöldunum, ég veit ekki hvar á að taka þau,“ sagði Guðjón Indriðason á Tálknafirði. „Við þekkjum ekki „umframhagnað“ og höfum ekki orðið varir við hann.“ Hjá fyrirtæki hans, Þórsbergi ehf., vinna um 60 manns til sjós og lands. „Við kunnum ekkert annað og höfum aldrei verið í neinu öðru. Það vill ábyggilega enginn hafa okkur í vinnu þannig að það er ekkert um það að ræða að gefast upp,“ sagði Guðjón. 4