Jónsmessunótt er ein af mögnuðustu nóttum ársins. Henni fylgir ýmiss konar náttúrutrú, m.a. að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Þessa nótt á að vera gott að leita töfragrasa og náttúrusteina og Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga.
Jónsmessunótt er ein af mögnuðustu nóttum ársins. Henni fylgir ýmiss konar náttúrutrú, m.a. að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Þessa nótt á að vera gott að leita töfragrasa og náttúrusteina og Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga. Þessa eiga gestir kost á að njóta í árlegri Jónsmessuhátíð á Seltjarnarnesi sem fram fer í kvöld kl. 18-20 og ber yfirskriftina Draumar á Jónsmessu. Hátíðin hefst og henni lýkur við safnhúsið sem áður var fyrirhugað Lækningaminjasafn og stendur við Nesstofu. Skammt þar frá er opinn fornleifauppgröftur sem Lóa Júlía Antonsdóttir, meistaranemi í fornleifafræði, mun rýna í. Þar verður unnt að skyggnast inn í fortíð og vistarverur genginna Seltirninga. Seltirningarnir Eva María Jónsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson leikari taka þátt í hátíðinni með frásögnum og fróðleik sem fær hárin til að rísa. Farið verður í stutta göngu og fjölskyldan sameinast í ratleik þar sem töfrajurtir og töfrasteinar leika stórt hlutverk. Hátíðinni lýkur með varðeldi, harmonikkuleik, söng og ljúfum veitingum í boði Hitaveitu Seltjarnarness.