Lundar Fylgst er með viðkomunni.
Lundar Fylgst er með viðkomunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ábúðarhlutfall lunda í Drangey á Skagafirði mældist vera 91% við athugun í gær, að sögn dr. Erps Snæs Hansen, líffræðings hjá Náttúrustofu Suðurlands.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ábúðarhlutfall lunda í Drangey á Skagafirði mældist vera 91% við athugun í gær, að sögn dr. Erps Snæs Hansen, líffræðings hjá Náttúrustofu Suðurlands. Það er hæsta ábúðarhlutfall lunda sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi rannsókna.

Árlegt lundarall stendur nú yfir en þá eru heimsóttir sömu varpstaðir lunda hringinn í kringum landið og fyrri ár og kannað hvernig varpið gengur. Ástand lundans virðist vera mun betra nú á Norðurlandi en á Suður- og Vesturlandi, líkt og undanfarin ár.

Byrjað var að þessu sinni að kanna ábúðarhlutfallið í Akurey á Faxaflóa, svo í Vestmannaeyjum, Elliðaey á Breiðafirði, Vigur í Ísafjarðardjúpi, Grímsey á Steingrímsfirði og voru talningarmenn í Drangey á Skagafirði í gær. Í dag á að fara í Lundey á Skjálfanda og svo í Grímsey. Bæta á við Fonti á Langanesi áður en farið er í Hafnarhólma í Borgarfirði eystra, Papey, Ingólfshöfða og Dyrhólaey.

Ábúðarhlutfallið, það er sá hluti holna sem orpið var í, var rétt tæp 60% í Vestmannaeyjum en var 52% í fyrra. Ábúð við eðlilegar aðstæður er um 75%. Fari ábúðin niður fyrir 60% sýnir reynslan að lítill árangur verður af varpinu. „Þetta er hörmulegt í Akurey í Faxaflóanum. Þar er ábúðarhlutfallið 46% og lítur illa út,“ sagði Erpur. Í Elliðaey á Breiðafirði var ábúðarhlutfallið um 60%, í Vigur var það um 70% sem er hefðbundið ástand þar og í Grímsey á Steingrímsfirði var ágætis ábúð.

Setja á hnattstöðurita á tíu lunda í Grímsey og jafnmarga í Papey og í Vestmannaeyjum. Ritarnir mæla daglengd og er hægt að reikna daglega staðsetningu fuglanna út frá gögnunum. Einnig verða settir hnattstöðuritar á fleiri svartfuglategundir. Verkefnið er unnið í samvinnu náttúrustofa Suðurlands, Vestfjarða og Norðausturlands.

Nýlega bárust niðurstöður ísótóparannsókna á hamflugfjöðrum lunda sem gefa vísbendingar um hvort fuglarnir éta aðallega ljósátu eða fisk. Kanadískir lundar hafa aðallega étið ljósátu á veturna og fisk á sumrin. Lundar úr Grímsey og Vestmannaeyjum éta fisk allan ársins hring. Pysjur í Eyjum voru aðallega í ljósátu sumarið 2009.

Einnig eru komnar niðurstöður þungmálmarannsókna á lundum úr Vigur, Grímsey, Lundey á Skjálfanda og úr Vestmannaeyjum. Í ljós kom að norðlenskir lundar voru svipaðir en blýmagn í Vestmannaeyjalundum var 8-9 sinnum hærra en í þeim norðlensku. Þá var 4-5 sinnum meira kadmíum og þrefalt meira selen í Eyjalundunum en hinum. Það þykir benda til þess að Eyjalundarnir séu á öðrum vetrarstöðvum en norðlenskir frændur þeirra.