Skuldavandi heimilanna Ríkisstjórnin hefur lagt fram tíu þrepa aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna.
Skuldavandi heimilanna Ríkisstjórnin hefur lagt fram tíu þrepa aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Skúli Hansen skulih@mbl.

Baksvið

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Almenn niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána er bæði dýr og óskilvirk aðgerð til að koma til móts við þau heimili sem glíma við bæði greiðslu- og skuldavanda, þá er hætta á því að kostnaður við almenna niðurfærslu skerði svigrúm til að bregðast við vanda þessara heimila. Þetta er niðurstaða rannsókna sérfræðinga Seðlabankans og bendir stofnunin á það í umsögn sinni um tíu þrepa aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna.

Efast um forsendubrest

Í umsögn sinni setur Seðlabankinn nokkur spurningarmerki við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. „Þannig myndi hugsanleg 20% almenn niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána dreifast þannig að um 57% afskriftanna myndu falla tveimur tekjuhæstu fimmtungunum í skaut, einungis um fjórðungur afskriftanna færi til heimila í greiðsluvanda og tvö af hverjum þremur heimilum í greiðsluvanda væru líkleg til að glíma áfram við þann vanda þrátt fyrir afskriftirnar,“ segir í umsögn Seðlabankans. Þá gagnrýnir Seðlabankinn notkun stjórnvalda á hugtakinu „forsendubrestur“ og segir vandséð að hugtakið eigi við í þessu tilfelli enda sé það kjarni verðtryggingarinnar að raungildi afborgana og eftirstöðva sé óháð sveiflum í verðbólgu. „Ætla má að langvarandi reynsla Íslendinga af verðbólgu og verðtryggingu lána geri það að verkum að þekking á þessu samhengi sé útbreidd,“ segir í umsögninni.

Fyrirsjáanlegt gengisfall

Samtök atvinnulífsins hafa einnig skilað inn umsögn um aðgerðaáætlunina en líkt og umsögn Seðlabankans er hún afar gagnrýnin. Í umsögn SA kemur fram að sagan sýni að sveiflur í efnahagslífi landsins séu mun öfgafyllri en hjá öðrum þjóðum og reglubundið birtist þær í of mikilli hækkun raungengis og kaupmáttar sem síðan leiðréttist með falli krónunnar. „Gengisfall krónunnar árin 2008-2009, verðbólgan í kjölfarið og þar með hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána var því hvorki fordæmalaust, ófyrirsjáanlegt né einvörðungu vegna hruns fjármálakerfisins. Rætur gengisfallsins lágu í efnahagsþróuninni og efnahags- og peningastefnunni undangengin ár þar sem of hátt raungengi og ósjálfbær viðskiptahalli léku aðalhlutverkin,“ segir í umsögn SA.

Þá segja samtökin áhyggjur sínar fyrst og fremst snúast um áhrif aðgerðanna á efnahagslífið og stöðu ríkissjóðs. Þannig hljóti stórfelld niðurfærsla skulda heimila að hafa víðtæk áhrif á efnahagslíf landsins, þ.ám. aukna einkaneyslu, aukinn innflutning og viðskiptahalla, auk þess gæti slík niðurfærsla stuðlað að veikara gengi krónunnar, aukinni verðbólgu og hærri vöxtum. „Verði þróunin sú verður afnám gjaldeyrishafta enn fjarlægara en ella,“ segir í umsögninni.

Vilja afnema stimpilgjöld

Jafnframt vara SA við alvarlegum afleiðingum þess að stjórnvöld banni verðtryggingu húsnæðislána og vísa þar til greinargerðar sem samtökin birtu á vef sínum 7. júní síðastliðinn. Þá vara SA einnig við því að sérstakur leiðréttingarsjóður verði fjármagnaður með beinni eða óbeinni lántöku af hálfu ríkissjóðs eða aukinni skattheimtu.

SA taka í umsögn sinni vel í hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að endurskoða stimpilgjöld á lánsskjölum og að stefnt verði að afnámi stimpilgjalda vegna húsnæðiskaupa einstaklinga til eigin nota. Samtökin benda þó á að vangaveltur um breytingar á lögum um stimpilgjald séu skaðlegar fyrir fasteignamarkaðinn sökum þess að þær valdi töfum og hindrunum í fasteignaviðskiptum á meðan beðið er eftir endanlegri niðurstöðu. Því sé mikilvægt að klára málið sem fyrst og helst að afnema lögin í heild.

Þá bendir Íbúðalánasjóður á það í umsögn sinni að í samtölum við viðskiptavini sjóðsins að undanförnu hafi það verið áberandi að margir þeirra geti vart lengur beðið eftir leiðréttingu lána. Almenningur hafi miklar væntingar til þessa verkefnis og því sé brýnt að hafa um það trausta umgjörð til að hraða framkvæmd þess og tryggja bæði samræmi og gegnsæi í vinnubrögðum fjármálastofnana og annarra lánveitenda.

ALMENNAR AÐGERÐIR TIL LEIÐRÉTTINGAR

Á misskilningi byggt

„Nú er þetta ekki ætlað til þess að koma til móts við þann hóp sem glímir við mestan vanda, það er nefnilega á misskilningi byggt. Aðgerðir til þess eru annars eðlis. Þetta eru svokallaðar almennar aðgerðir til leiðréttingar á forsendubresti sem allur almenningur varð fyrir,“ segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, spurður út í gagnrýni Seðlabanka Íslands á almennar niðurfærslur lána.

Hann segir að fólk hafi gert lánasamninga við lánveitendur, síðan hafi orðið miklar breytingar á öllum forsendum í kerfinu og þá sé litið svo á að skuldarinn eigi að taka allt á sig. „Við viljum segja að hann tekur þetta náttúrlega á sig upp að einhverju marki en eins og í öllum samningum þegar verður forsendubrestur með þessum hætti og svona gríðarlegar breytingar frá því sem menn bjuggust við, þá er rétt að báðir aðilar beri það sameiginlega sem er utan við einhverjar eðlilegar væntingar.“