Zoran Gobac
Zoran Gobac
Zoran Gobac, einn af frammámönnum Handknattleikssambands Krótaíu, er óánægður með hvernig hagað var drætti fyrir Evrópumeistaramótið í handknattleik karla sem fram fer í Danmörku í janúar. Dregið var á föstudaginn.

Zoran Gobac, einn af frammámönnum Handknattleikssambands Krótaíu, er óánægður með hvernig hagað var drætti fyrir Evrópumeistaramótið í handknattleik karla sem fram fer í Danmörku í janúar. Dregið var á föstudaginn. Hann segir Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hafa stillt mótinu upp fyrir gestgjafana þannig að þeir komist með sem auðveldustum hætti áfram í undanúrslit mótsins. „Hingað til hafa gestgjafar fengið að velja sér riðil eftir að dregið hefur verið en nú var það gert fyrirfram. Þar af leiðandi gátu Danir valið sér auðveldari mótherja í riðlakeppninni. Þeir komust um leið hjá því að mæta of mörgum stórþjóðum snemma. Það er ekki við Dani að sakast í þessum efnum heldur EHF. Svona vinnubrögð væru aldrei viðhöfð í kringum EM í knattspyrnu eða körfuknattleik,“ segir Gobac sem veltir því fyrir sér hvort Danir hafi keypt keppnina af EHF. Gobac rifjar upp að atkvæði hafi týnst á sínum tíma þegar kosið var á milli Dana og Króata um að vera gestgjafar EM 2014. „Nú er kannski komin fram skýring á af hverju atkvæðin tvö týndust.“ iben@mbl.is