Meistarar Guðmundur Ágúst og Ólafía Þórunn úr GR eru Íslandsmeistarar í holukeppni.
Meistarar Guðmundur Ágúst og Ólafía Þórunn úr GR eru Íslandsmeistarar í holukeppni. — Ljósmynd/GSI
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
golf Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, bæði úr Golfklúbbi Reykjavíkur, urðu um helgina Íslandsmeistarar í holukeppni, en leikið var á Hamarsvelli í Borgarnesi.

golf

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, bæði úr Golfklúbbi Reykjavíkur, urðu um helgina Íslandsmeistarar í holukeppni, en leikið var á Hamarsvelli í Borgarnesi. Guðmundur lagði Rúnar Arnórsson úr Keili 3/2 og Ólafía Þórunn vann Tinnu Jóhannsdóttur úr Keili 2/1.

„Auðvitað er ég ánægð með sigurinn, en ég var samt nokkuð óhress með sjálfa mig á köflum í þessu móti,“ sagði Ólafía Þórunn í samtali við Morgunblaðið eftir að hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn og setti niður laglegt pútt á sautjándu flöt fyrir sigrinum.

Keppni þeirra Tinnu var spennandi en Ólafía átti þrjár holur eftir fyrri níu holurnar, vann áttundu og níundu. „Ég átti að setja púttið í á tíundu og þá hefði ég verið komin með ansi þægilega stöðu, en ég missti það og var ekki hress með það,“ segir Ólafía Þórunn.

Báðar lentu í vatni

Þegar þær komu á 15. teig átti Ólafía tvær holur. Tinna sló of stutt og lenti í vatninu framan við flötina. „Ég hugsaði með mér að vindurinn væri trúlega sterkari en ég héldi. Svo sló ég yfir flötina og vatnið hinum megin. Það var ekki nógu gott eftir að hafa séð Tinnu slá í vatnið,“ sagði Ólafía Þórunn, en þessi hola féll á tvöföldum skolla.

Tinna vann síðan næstu holu og þá átti Ólafía Þórunn aðeins eina holu og tvær holur eftir. Þær slógu báðar á braut og síðan inn á flöt en áttu nokkuð löng pútt eftir. Ólafía Þórunn setti sitt niður og tryggði sér þar með sigurinn, en þetta er í annað sinn sem hún verður Íslandsmeistari í holukeppni, sigraði einnig fyrir tveimur árum.

Leikur Guðmundar við Rúnar var ekki síður spennandi. Rúnar átti tvær holur eftir fyrri níu holurnar en Guðmundur hefur eitthvað farið yfir sín mál á leiðinni á tíunda teig og vann næstu þrjár holur og átti því eina holu eftir tólftu. „Ég sá að ég varð að fara að gera eitthvað af viti og það tókst að vinna þrjár í röð og snúa leiknum þannig við. Hann gerði mistök á 10. og 12. og ég setti niður frábæran fugl á elleftu,“ sagði Guðmundur Ágúst.

Þrettánda holan féll því báðir fengu fugl á henni, en Guðmundur vinnur síðan á 14. með fínum fugli og þá 15. líka þannig að hann átti þrjár holur þegar þeir gengu á 16. teiginn. Aðeins þrjár holur eftir og Rúnar varð að sækja stíft til að jafna og knýja fram bráðabana. Það tókst ekki því næsta hola féll og Guðmundur Ágúst fagnaði sigri. Tvöfaldur sigur GR-manna og mikil hamingja í Grafarholtinu.

„Pinninn á 16. var lengst til vinstri og ég sló eins langt til hægri á flötina og ég gat og skildi síðan eftir þriggja metra pútt. Það var rosalega erfitt pútt, fyrst upp í móti og svo niðurhalli og breik frá hægri til vinstri. En ég skellti því í,“ sagði meistarinn.

Búinn að bíða lengi

„Það má eiginlega segja að ég hafi beðið dálítið lengi eftir þessu því ég hef ekki unnið síðan 2010,“ sagði Guðmundur Ágúst ánægður með sigurinn. „Nú vonar maður að þetta sé komið hjá mér,“ sagði meistarinn.

Hann sagði að vindurinn hefði sett smá strik í reikninginn í gær og „flatirnar voru mjög harðar og það var virkilega erfitt að halda boltanum á þeim, sérstaklega ef menn voru að slá úr einhverju röffi. Annars gekk þetta bara vel, þetta var jafnt hjá mér en enginn súper-hringur og ekki heldur neinn mjög slæmur,“ sagði holumeistarinn.

Það er nóg framundan hjá þessum ungu kylfingum því þau Guðmundur Ágúst og Ólafía Þórunn halda til Danmerkur á miðvikudaginn ásamt Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur þar sem þau keppa á sterku móti. Síðan er stutt í EM og rétt um mánuður þar til Íslandsmótið í höggleik verður haldið á heimavelli Íslandsmeistaranna í holukeppni.

Guðmundur Henning Hilmarsson úr GKG varð í þriðja sæti í karlaflokki eftir sigur á Birgi Guðjónssyni úr GR og hjá konunum varð Signý Arnórsdóttir úr GK í þriðja sæti eftir sigur á Önnu Sólveigu Snorradóttur úr GK.