Ísland var kjörið til setu í stjórn FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, síðastliðinn föstudag. Ísland mun eiga stjórnarsæti á næsta kjörtímabili sem er frá 2014-2017. Ekki hefur verið ákveðið hver verður fulltrúi Íslands í stjórninni, að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.
Í stjórn FAO eiga sæti fulltrúar 49 ríkja og falla tíu þeirra Evrópuríkjum í skaut. Norðurlöndin hafa skipst á um að sækjast eftir sæti í stjórn stofnunarinnar. Nú situr þar fulltrúi Danmerkur.
Meginmarkmið FAO er að stuðla að auknu fæðuöryggi í heiminum. Ísland er eitt af stofnríkjunum og hefur beitt sér mikið í sjávarútvegsmálum innan stofnunarinnar. FAO hefur einnig sýnt áhuga á samvinnu við Íslendinga varðandi nýtingu jarðvarma, landgræðslu og jafnréttismál. gudni@mbl.is