Vilhjálmur A. Kjartansson
vilhjalmur@mbl.is
Tónleikastaðurinn Faktorý fer fram hjá fáum sem sækja miðbæ Reykjavíkur til að gera sér glaðan dag eða njóta næturlífsins um helgar. Staðinn er að finna inn með hálfgerðu porti á Smiðjustíg milli Hverfisgötu og Laugavegar og þó fasteignin sjálf sé gömul og farið að sjá á henni er staðurinn sjálfur allt annað en gamaldags. Gamlar byggingar þurfa þó oft að víkja fyrir nýjum og nú stendur til að Faktorý víki fyrir glænýju hóteli með öllum nútímaþægindum. Arnar Fells Gunnarsson, einn eigenda Faktorý, segir mikinn söknuð verða að staðnum við Smiðjustíg. „Ég er ekki á móti skynsamlegri uppbyggingu í miðbænum en það er sárt að horfa á eftir staðnum sem maður hefur lagt líf sitt og sál í síðastliðin þrjú ár. Við gerðum upphaflega leigusamning til 15 ára og tjölduðum því ekki til einnar nætur. Við höfum verið í stanslausum framkvæmdum í húsnæðinu frá því við opnuðum og það er kaldhæðni örlaganna að það verði rifið akkúrat þegar það er orðið eins og við viljum hafa það.“ segir Arnar.
Bestu staðirnir lifa í minningunni
Eflaust munu margir tónlistarunnendur sjá eftir skemmtistaðnum enda hafa margar hljómsveitir stigið sín fyrstu spor á Faktorý að sögn Arnars. „Ég tók það saman í vetur hvað margir tónlistarviðburðir hafa verið hjá okkur frá því við stofnuðum staðinn fyrir rúmum þremur árum og þeir munu nálgast 1.100 þegar við lokum staðnum núna 10. ágúst,“ segir Arnar en gengið var frá samningum við eigendur hússins um að Faktorý loki sínum dyrum 10. ágúst.Slíkur fjöldi tónlistarviðburða á jafn skömmum tíma hlýtur að vera Íslandsmet að sögn Arnars en ýmsar hljómsveitir hafa átt viðkomu á Faktorý þegar þær voru að taka sín fyrstu skerf eins og Of Monsters and Men og Retro Stefson svo einhverjar séu nefndar.
Ekki enn fundið nýjan stað
Flestir sem þekkja til Faktorý munu sakna staðarins á Smiðjustígnum en eins og með alla góða staði þá á hann eftir að verða betri í minningunni. Ekki er þó útilokað að Faktorý verði opnað á nýjum stað en Arnar segir óljóst í dag hvort og hvar staðurinn verður. „Auðvitað höfum við verið að skoða í kringum okkur en það er ómögulegt að finna jafn hentugt húsnæði í miðbænum. Ef við myndum sætta okkur við verra húsnæði er ekki víst að staðurinn yrði eins farsæll og hann hefur verið síðustu þrjú ár,“ segir Arnar.Faktorý verður lokað 10. ágúst og að sögn Arnars er heljarinnar dagskrá framundan. „Við ætlum að þakka fyrir okkur og kveðja gamla staðinn með stæl og bjóða upp á bestu dagskrá sem völ er á. Það ætti enginn tónlistarunnandi að láta viðburðina okkar fram hjá sér fara í sumar.“