Margir kalla eftir úrbótum í málefnum hælisleitenda á Íslandi. „Við höfum séð dæmi þess að það taki Útlendingastofnun allt að þrjá mánuði að afgreiða umsóknir um bráðabirgðadvalarleyfi sem þarf að fylgja umsókn um tímabundið atvinnuleyfi,“ segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands. „Það gefur augaleið að atvinnurekandi er mjög tregur til þess að bíða í þrjá mánuði eftir starfskrafti.“
Katrín Oddsdóttir, lögmaður, segir nauðsynlegt að einfalda ferlið í kringum umsókn um atvinnuleyfi. „Fólk sem hefur ekki kennitölu, eins og á við um alla hælisleitendur þegar þeir koma til landsins, á mjög erfitt með að fá vinnu. Það væri auðveldlega hægt að bæta úr þessu til dæmis með því að úthluta kennitölum utan kerfis líkt og gert er fyrir erlenda viðskiptamenn. Slíkar kennitölur veita engin réttindi en gera hælisleitendum hins vegar kleift að vera virkir innan samfélagsins og leita að vinnu.“
Þá bendir Katrín á að staða þeirra hælisleitenda sem falla undir Dyflinnarreglugerðina sé sérstaklega slæm. „Þeir mega ekki vinna með vísan til þess að málsmeðferðin eigi að vera fljótleg en sú er ekki raunin alltaf. Ég veit um dæmi þess að fólk þurfi að bíða í marga mánuði og jafnvel ár eftir því að tekin sé endanleg ákvörðun í málunum og á meðan má það ekki vinna en það er ljóst að það er öllum til góðs að sem flestir fái tækifæri til þess að sjá fyrir sér.“
Aftur á framfæri yfirvalda
Atli bendir auk þess á að það umhverfi sem bíði hælisleitenda þegar þeir fá loks atvinnuleyfi geti reynst þeim erfitt og sumir gætu neyðst til þess að fara aftur á framfæri hins opinbera. „Þeir sem eru á framfæri ríkisins eða Reykjanesbæjar, eiga rétt á allri nauðsynlegri þjónustu, þar á meðal heilbrigðisþjónustu sem kostuð er af yfirvöldum. Ef fólk fær atvinnuleyfi þá er það algjörlega upp á sjálft sig komið og hefur ekki lengur sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir hælisleitendur.“Hera Ósk Einarsdóttir, forstöðumaður hjá fjölskyldu- og félagssviði Reykjanesbæjar, segir að hælisleitendur sem komnir eru með tímabundið atvinnuleyfi geti keypt sjúkratryggingar. „Þetta er vissulega kostnaður en þessi fjárfesting getur verið fljót að borga sig ef maður veikist eða lendir í slysi en fólki er í sjálfsvald sett hvort það kaupir tryggingar eða ekki.“
mariamargret@mbl.is