Silfursveit Íslenska sveitin sem fékk silfur í 4x400 m boðhlaupi á EM í Slóvakíu. F.v.: Björg Gunnarsdóttir, Aníta Hinriksdóttir, Stefanía Valdimarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir. Þær Björg, Stefanía og Hafdís fengu einnig silfur í 4x100 m boðhlaupi en þá var María Rún Gunnlaugsdóttir einnig í sveitinni.
Silfursveit Íslenska sveitin sem fékk silfur í 4x400 m boðhlaupi á EM í Slóvakíu. F.v.: Björg Gunnarsdóttir, Aníta Hinriksdóttir, Stefanía Valdimarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir. Þær Björg, Stefanía og Hafdís fengu einnig silfur í 4x100 m boðhlaupi en þá var María Rún Gunnlaugsdóttir einnig í sveitinni. — Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í SLÓVAKÍU Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Þótt árangur Anítu Hinriksdóttur standi vissulega upp úr eftir þátttöku Íslands í 3.

Í SLÓVAKÍU

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Þótt árangur Anítu Hinriksdóttur standi vissulega upp úr eftir þátttöku Íslands í 3. deild Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum í Banská Bystrica í Slóvakíu um helgina, þá var það nú svo að varla einn einasti fulltrúi Íslands hélt af mótinu óánægður með sína frammistöðu. Ísland endaði í fjórða sæti keppninnar, þriðja sinn í röð, og tókst því ekki að ná aðalmarkmiðinu um að fara upp í 2. deild. Heimamenn í Slóvakíu og Lettar náðu því að þessu sinni. Árangurinn á mótinu var þó framar væntingum að mörgu leyti hjá Íslendingum.

Það er ekki ókleifur klettur að komast upp í 2. deild, og Ísland er á uppleið, syllu fyrir syllu. Ísland hlaut 437,5 stig á mótinu eftir að hafa fengið 411 stig í síðustu keppni, í Reykjavík fyrir tveimur árum, og 400 stig árið 2010. Uppsveiflan heldur vonandi áfram að ári liðnu en 485 stig hefði þurft til að ná 2. sæti að þessu sinni.

Aníta fór fyrir íslenska hópnum og náði í bæði gullverðlaun Íslands, í 800 og 1.500 metra hlaupum. Hún vann afar örugga sigra í báðum hlaupum og átti fínan fyrsta sprett fyrir sveit Íslands í 4x400 metra boðhlaupi en þar hafði Ísland forystu fram að lokametrunum að Slóvakar stálu sigrinum. Nánar er fjallað um árangur Anítu á forsíðu íþróttablaðsins.

Kolbeinn með EM-lágmark

Íslendingar unnu til silfurverðlauna í sjö greinum, og bronsverðlauna í sex greinum. Tíu af keppendum Íslands eru nýliðar og fleiri eru rétt að festa sig í sessi í landsliðinu. Þannig má nefna framgöngu Akureyringsins Kolbeins Haðar Gunnarssonar sem er aðeins 17 ára gamall en fékk silfur í 200 metra hlaupi, hljóp á 21,60 sekúndum, en með því náði hann sínu öðru lágmarki fyrir EM 19 ára og yngri sem fram fer á Ítalíu í júlí.

Kolbeinn átti reyndar inni fyrir gullverðlaunum í hlaupinu en hann hljóp uppi hvern andstæðinginn á fætur öðrum eftir að fyrri hlutinn hafði ekki verið nægilega vel útfærður. Hann var aðeins 5/100 úr sekúndu frá því að bæta Íslandsmetið í flokki 19 ára og yngri, og það met mun hann pottþétt bæta, og sjálfsagt er ekki svo langt þar til 17 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar upp á 21,17 sekúndur fellur.

Guðmundur á hraðri uppleið

Guðmundur Sverrisson, sem er nýorðinn 23 ára, kastaði spjóti í tvígang yfir 75 metra, lengst 76,35 metra, og bætti sig um tæpa tvo metra. Guðmundur náði 2. sæti og kastaði mun lengra en næstu menn. Þessi stæðilegi ÍR-ingur hefur æft undir handleiðslu sjálfs Einars Vilhjálmssonar ásamt FH-ingnum Erni Davíðssyni og hefur bætt sig hratt síðasta árið.

Ólympíufararnir Óðinn Björn Þorsteinsson og Ásdís Hjálmsdóttir fengu bæði silfur í sínum aðalgreinum. Ásdís mætti keppinaut sínum af Demantamótaröðinni, Madöru Palameika frá Lettlandi, en náði aðeins að kasta 53,28 metra, sem er fjarri hennar besta. Palameika kastaði einnig styttra en hún er vön, en þó 57,07 metra. Óðinn varð að sætta sig við silfur í kúluvarpi en stefndi þar á gullið. Hann kastaði lengst 17,81 metra sem var 21 sentímetra styttra en sigurkastið.

Á engum mæddi meira en Norðlendingnum Hafdísi Sigurðardóttur en hún keppti alls í fimm greinum og fékk verðlaun í fjórum þeirra. Hafdís náði í silfur í 100 metra hlaupi, brons í 400 metra hlaupi og varð í 4. sæti í Íslandsmetsgrein sinni, langstökki. Hún var svo í báðum boðhlaupssveitum Íslands sem fengu silfur í 4x100 og 4x400 metra hlaupum. Eflaust hefur þreyta verið farin að segja til sín þegar Hafdís hljóp lokasprett í gær og rétt missti af gullverðlaunum eins og fyrr segir.

Evrópukeppni landsliða
» Ísland endaði í fjórða sæti keppninnar, þriðja sinn í röð.
» Heildarárangurinn batnar keppni frá keppni.
» Árangur Anítu stendur upp úr en fleiri stóðu sig vel og hrepptu verðlaun.
» Guðmundur kastaði spjótinu yfir 75 metra í þriðja sinn.