Ari Freyr, sem er fyrirliði Sundsvall, opnaði markareikninginn á 6. mínútu. Ekki voru liðnar nema 25 mínútur í viðbót af leiknum þegar hann hafði skorað annað mark. Jón Guðni Fjóluson sat á meðal varamanna Sundsvall allan leikinn.
Liverpool er að ganga frá kaupunum á belgíska markverðinum Simon Mignolet fyrir 11 milljónir punda. Það setur spurningarmerki við framtíð Pepe Reina . „Það hefur ekkert breyst hjá mér. Ég hef sagt það oft og mörgum sinnum að ég er mjög ánægður hjá Liverpool. Hvert lið þarf samkeppni og þegar það er jákvæð samkeppni þá er það ekkert nema jákvætt. Ef hann kemur þá mun ég bjóða hann velkominn og aðstoða hann í einu og öllu,“ sagði Reina í gær. Reina hefur verið orðaður við markvarðarstöðuna hjá Barcelona en hann fór þaðan árið 2002 til Villarreal.
T ony Adams , sem spilaði 669 leiki fyrir Arsenal og vann 10 titla með félaginu, gagnrýnir Arsenal harðlega fyrir að ráða Sir Chips Keswick sem stjórnarformann. Keswick er 73 ára. Peter Hill-Wood hætti sem stjórnarformaður fyrir skömmu vegna heilsubrests og snéri Arsenal sér að Keswick til að fylla hans skarð. „Hann er frábær maður en þetta var kannski ekki mjög hugrökk ákvörðun hjá eigandanum. Ef þeir vildu fá fígúru innan Arsenal hefðu þeir átt að ráða mig. Það hefði verið betri hugsjón hjá félaginu. Það er kominn tími á að Arsenal vinni eitthvað á ný. FA bikarinn eða þess vegna deildarbikarinn. En ég sé það ekki gerast – ef ég á að vera hreinskilinn. Liðið er ekki nógu gott á nokkrum stöðum á vellinum og þeir eru langt frá því að vinna deildina,“ segir Adams.
Charles N´Zogbia , leikmaður Aston Villa, meiddist á meðan hann var í fríi í Bandaríkjunum og þarf að fara í aðgerð. Það er ekki ljóst hve lengi hann verður frá keppni en Roddy MacDonald, yfirmaður læknaliðs Aston Villa, er farinn út til Bandaríkjanna og ætlar að verða viðstaddur aðgerðina sem N´Zogbia þarf að fara í.