Eins og allir vita þá eru hinir raunverulegu skúrkar í þjóðfélaginu þeir sem eiga ekki fyrir rafmagnsreikningnum sínum um mánaðamótin – að ekki sé minnst á þá sem eru svo vitlausir að vilja eiga þak yfir hausinn á sér. Þeir lenda á nauðungaruppboði:
Enn fá skúrkarnir skyldug spörk
og skuldabyrðina þyngri og þyngri,
en Hótel Örk kaupir Hótel Örk
og Hótel Örk græðir á tá og fingri.
Þessi vísa er móðir vísunnar: Margan rakst hann á refilstíg...
Mönnum er í fersku minni þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kallaði þingmenn vinstri-grænna villiketti að gefnu tilefni. Þetta rifjaðist upp þegar ég sá þessar stökur með minni rithönd í dóti föður míns. Veit ekki tilefnið og ekki einu sinni höfundinn!
Heldur finnst mér gaula í görn
gömul eymda seyra
þótt þeir hafi kött og kvörn
og kannski eitthvað fleira.
Þegar skolli þingi sleit
þótti fáum gaman.
Kötturinn á kónginn leit
og kipraði sig í framan.
Á Músaþverá vel ég veit
verður ei heldur gaman;
komin er þar í kröggur sveit
kattarlaus öll saman.
Síðan hef ég skrifað á spássíu: Guðjón Helgason í Brimnesi:
Lá ég úti í löndum mínum
lítinn þátt úr öld
svásrar gyðju sekúndustillir
sirka spesíalt kvöld.
Þá fann ég bækling, Nöfn Dalamanna 1703-1845, með kærri kveðju frá fóstra mínum Gísla Jónssyni menntaskólakenara á Akureyri, – sérprent úr Skírni haustið 1991. Aftan á kápu var þessi limra skrifuð með vinarhug G.J:
Að sigrast á Framsóknarfjanda
og sem fastast á rétti að standa
er afrek og sómi
að ófárra dómi
og heitir að vaxa með vanda.
Kristján Karlsson orti:
Oft var hesti Óðins brátt,
eyjum trúi eg strái.
Breiðfirðingar engri átt
ætla að þetta nái.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is