Af þeim 15 þjóðum sem kepptu í 3. deild Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum í Slóvakíu um helgina var það Ísland sem átti þann fulltrúa sem besta afrekið vann. Það var að sjálfsögðu Aníta Hinriksdóttir en með því að hlaupa 800 metra hlaupið á laugardaginn á 2:01,17 mínútum hlaut hún 1.132 stig samkvæmt stigalista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.
Aníta stóð sig jafnframt mjög vel í 1.500 metra hlaupi í gær og kom í mark á 4:16,50 mínútum. Sá tími jafngildir 1.076 stigum samkvæmt stigalista. Aníta vann þar með bestu afrek íslenska hópsins báða dagana en hún var jafnframt eini gullverðlaunahafi hans.
Uppskeruhátíð mótsins var í miðbæ Banská Bystrica í gærkvöld en Aníta var ekki viðstödd til að taka við viðurkenningu fyrir afrek sitt enda lagði hún af stað í langa reisu heimleiðis um ellefuleytið í gær. sindris@mbl.is