Ræða Kristín Ingólfsdóttir flytur ræðu við athöfnina á laugardag.
Ræða Kristín Ingólfsdóttir flytur ræðu við athöfnina á laugardag. — Ljósmynd/Arnaldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Háskóli Íslands brautskráði 1841 kandídat við hátíðlega athöfn í Laugardalshöll sl. laugardag. Alls voru 1859 prófskírteini afhent, flest skírteini voru afhent á félagsvísindasviði, eða 631, en fæst á hugvísindasviði,...

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Háskóli Íslands brautskráði 1841 kandídat við hátíðlega athöfn í Laugardalshöll sl. laugardag. Alls voru 1859 prófskírteini afhent, flest skírteini voru afhent á félagsvísindasviði, eða 631, en fæst á hugvísindasviði, 209.

Á heilbrigðisvísindasviði voru afhent 376 prófskírteini, á menntavísindasviði 358 skírteini og á verkfræði- og náttúruvísindasviði voru afhent 285 skírteini.

Í fyrsta sinn voru brautskráðir meistaranemar í þverfræðilegu námi í miðaldafræðum, í ritlist og í ráðstefnutúlkun og nytjaþýðingum frá hugvísindasviði. Einnig tóku fyrstu nemarnir við viðbótardiplóma frá meistarastigi í námsleiðinni heilbrigði og heilsuuppeldi við menntavísindasvið.

Lausnin felst í menntakerfinu

Við brautskráninguna sagði Kristín Ingólfsdóttir rektor að samfélagið þyrfti nauðsynlega aukna verðmætasköpun til að mæta breyttri aldurssamsetningu og auknum kröfum um samfélagslega þjónustu. Eina raunverulega leiðin til að ná þessu fram væri að fjárfesta í menntakerfinu og auka kröfur til allra skólastiga: „Það muni leiða til verðmætasköpunar í gamalgrónum atvinnugreinum og nýjum. Án slíkrar verðmætasköpunar verði lítið úr uppbyggingu skólakerfis, velferðarkerfis og menningarlífs,“ sagði Kristín í ræðu sinni.

Hún vakti einnig athygli á því að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar væri sérstaklega tiltekið að standa bæri við samning um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands, sem meðal annars fæli í sér að á næstu árum yrðu fjárveitingar til Háskóla Íslands í samræmi við það sem gerist í ríkjum OECD og á öðrum Norðurlöndum. Þetta væri mjög mikilvægt stefnumál og við þær þröngu fjárhagslegu aðstæður sem nú ríktu í samfélaginu hlyti þetta að þýða breytta forgangsröðun í þágu menntakerfisins.

Verðmætasköpun í raungreinum

Í ræðu Kristínar sagði einnig að nauðsynlegt væri að vekja áhuga barna og unglinga mun fyrr á greinum sem augljóslega þyrfti að efla til verðmætasköpunar, en nú á tímum væru þetta einkum raungreinar og tæknitengdar greinar. „Við fögnum því sérstaklega að fjöldi stúdenta í tölvunarfræði og fjöldi stúdenta í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands hefur rúmlega fjórfaldast á 4 árum og fjöldi efnafræðinema þrefaldast,“ sagði Kristín og bætti því við að nemendum í eðlisfræði og stærðfræði hefði einnig fjölgað en enn þyrfti að hvetja til sóknar í allar þessar greinar.

BRÝNT AÐ MENNTAKERFIÐ SÉ Í ÞÁGU VERÐMÆTASKÖPUNAR

Fjögur atriði til aukinna gæða

Í ræðu sinni tiltók Kristín fjögur atriði sem nauðsynlegt væri að vinna að til að mæta kröfum um aukin efnisleg, samfélagsleg og andleg verðmæti.

Í fyrsta lagi væri mikilvægt að öll skólastig væru samkeppnisfær við það sem best gerist í heiminum og ekkert minna en það.

Í öðru lagi þyrfti að vekja börn og unglinga til áhuga á raungreinum og tæknitengdum greinum mun fyrr en gert er nú, en stúdentum í þessum greinum hefur fjölgað mikið síðustu ár.

Í þriðja lagi þyrfti að endurnýja kennsluaðferðir á öllum stigum menntakerfisins og tryggja að kennarar í öllum greinum hafi getu til að vinna með nýjustu upplýsingatækni til að nýta þá hæfileika sem ungt fólk býr yfir í dag og gera kennsluna þannig árangursríkari.

Í fjórða og síðasta lagi sagði Kristín að menntakerfið yrði að hlúa betur að þeim nemendum og kennurum sem hefðu sköpunarneista og öflugt hugvit, en á því byggðist nýsköpun í atvinnulífi. Skólar þyrftu að hvetja til og hlúa að sköpunargetu einstaklinga og ýta undir sjálfstæða hugsun.