Hollensk stjórnvöld hafa áttað sig á því, sem stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu neita að viðurkenna, að samrunaferlið innan sambandsins hefur gengið allt of langt. Ríkisstjórnin þar í landi hefur látið taka saman skýrslu um stöðuna að þessu leyti innan ESB og nefnir ýmis dæmi þar sem gengið hafi verið of langt í samrunanum.
Engu að síður er ljóst að hollensk stjórnvöld vilja mikinn samruna ríkja Evrópusambandsins og telja til að mynda ríka þörf fyrir samvinnu til að fást við fjármála- og efnahagskrísur, orkumál, skattsvik, flóttamannamál, innri markaðinn og fleira.
Furðu sætir að hér á landi skuli hafa verið sótt um aðild að ESB og að aðlögunarferlinu sem umsókninni fylgir skuli hafa verið haldið áfram árum saman án þess að nokkur umræða hafi farið fram um þetta stóra samrunamál af hálfu þeirra sem barist hafa fyrir umsókninni og unnið hafa að henni.
Hér var lofað upplýstri umræðu, en öll umræða umsóknarsinna hefur gengið út á blekkingar, annars vegar um stöðu viðræðnanna og hins vegar um stöðu og þróun Evrópusambandsins sjálfs.
Þeir sem berjast fyrir aðild hér á landi viðurkenna ekki að sambandið hafi verið að þróast í þessa samrunaátt og að unnið sé að áframhaldandi samruna.
Hvernig ætli standi á að þetta sé slíkt feimnismál?