Eiður Ágúst Gunnarsson var fæddur 22. febrúar 1936. Hann lést 15. júní 2013 á Landspítalanum í Fossvogi.

Eiður var sonur hjónanna Elínar Valdimarsdóttur, f. 1912, d. 1998 og Gunnars Hálfdánarsonar, f. 1909, d. 2001. Systur Eiðs eru Helena Marín, f. 1934, d. 1974, Arnfríður Halla, f. 1937 og Mjöll, f. 1954.

Árið 1966 kvæntist Eiður eftirlifandi eiginkonu sinni, Lucindu Grímsdóttur, ritara, f. 1940, og gekk syni hennar, Grími Inga, f. 1961, í föðurstað.

Eiður hóf ungur söngnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Þorsteini Hannessyni og síðar hjá Vincenzo Maria Demetz. Árið 1966 fór Eiður til náms hjá Konservatorium der Stadt Köln, Óperudeild, í Þýskalandi, þar sem aðalkennari hans var Robert Blasius. Einnig sótti Eiður söngtíma hjá hinum heimsfræga tenórsöngvara Helge Rosvaenge, sem starfaði og bjó í München. Eftir námið í Köln starfaði Eiður frá 1970 til 1973 við óperuna í Düsseldorf, síðan lá leiðin í óperuna í Linz í Austurríki. Hann var svo ráðinn til Óperuhússins í Aachen þar sem hann starfaði frá 1974 til 1987. Þá flutti Eiður ásamt fjölskyldu sinni heim til Íslands og starfaði þar síðan meðan heilsan leyfði. Eiður söng nokkur hlutverk við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna, einnig á meðan hann starfaði erlendis, en helgaði sig að mestu söngkennslu bæði við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Eiður kom einnig fram á einkatónleikum og söng fjölda sönglaga í Ríkisútvarpinu. Árin 1983 og 1984 söng hann fyrir Ríkisútvarpið lagaflokkana „Svanasöngur“ (Schwanengesang) eftir Franz Schubert og „Ástir skálds“ (Dichterliebe) eftir Robert Schumann á íslensku í þýðingu Daníels Á. Daníelssonar við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Upptökur þessar komu út á geisladiskum árið 2010.

Á yngri árum var Eiður afreksmaður í frjálsum íþróttum og jafnframt öflugur skákmaður. Þá sneri hann sér fyrir um 25 árum að golfíþróttinni og náði þar mjög góðum árangri eins og í öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Skákina stundaði hann alla tíð og allt til þess að lagðist rúmfastur fyrir um fjórum mánuðum.

Útför Eiðs Ágústs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. júní 2013, og hefst kl. 13.

Við minnumst með trega mágs og vinar Eiðs Ágústs Gunnarssonar. Kynni okkar hófust þegar þau Lucinda og Eiður giftu sig árið 1966 en í framhaldi af því fór Eiður til söngnáms í Þýskalandi. Lucinda fylgdi í kjölfarið með syni sínum Grími Inga og af því varð landfræðilegur aðskilnaður næstu 20 árin en það stóð ekki í vegi fyrir að við áttum góðar stundir saman með gagnkvæmum heimsóknum. Í raun urðu kynni okkar af Eiði enn nánari með dvöl okkar á myndarlegu heimili þeirra Lucindu í Köln og svo í Aachen.

Eiður var hægur og yfirvegaður maður. Sáum við fljótt að hvað sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann af mikilli elju og vandvirkni. Við fræddumst um afrek hans á unga aldri í íþróttum, ekki með því að hann héldi því á lofti heldur þegar við bárum saman bækur okkar um líf okkar og viðhorf. Skákíþróttina stundaði Eiður alla tíð og keyrði um langan veg til að tefla í skákfélagi í Belgíu handan við landamæri. Skákin létti Eiði mjög lífið í langvinnum veikindum síðustu ár.

Til marks um elju og dugnað Eiðs sneri sér að golfíþróttinni með Lucindu og tóku þau það svo sannarlega með trompi. Samhent náðu þau hjónin framförum og frábærum árangri í golfinu. Eiður sýndi þar á sér nýja hlið þar sem hann varð opnari og tengdist mörgum golffélögum nánum vináttuböndum. Síðustu árin var unun að sjá Eið halda áfram að leika leikinn sinn illa haldinn af einkennum Parkinsons. Félagarnir nutu að sjá hann leika listir sínar þrátt fyrir þennan annmarka. Eiður keypti sér golfbíl til að geta haldið áfram. Já, ekkert gat stöðvað hann.

Eiður var fágaður söngvari og starfaði í Düsseldorf, Linz og lengst í Aachen. Eftir giftusaman feril fluttu þau Lucinda heim ásamt Grími Inga árið 1987. Þá sneri Eiður sér að söngkennslu við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann söng líka hlutverk í Þjóðleikhúsinu og í Íslensku óperunni og söng fjölda sönglaga í Ríkisútvarpinu. Það er til marks um vinsældir Eiðs að margir nemendur hans tóku sig til og héldu tónleika honum til heiðurs á 75 ára afmæli hans.

Fyrir 2 árum réðst Eiður í það stórvirki að kaupa af RUV upptökur sínar frá fyrri árum og gaf út tvo geisladiska í einu umslagi. Titill diskanna var „Svanasöngur“ og má leggja dýpri merkingu í það enda þótt meginefnið hafi verið „Schwanengesang“ eftir Franz Schubert. Þá kom okkur á óvart þegar Eiður sýndi okkur þykkt handrit af ljóðum sem hann hafði ort í frístundum en þeim hafði hann ekki flíkað frekar en öðru sem hann gerði. Við vissum að hann átti gott með að yrkja en að hann ætti þennan fjársjóð kom á óvart. Hann gaf þessi ljóð út í fyrra með dyggri aðstoð Lucindu og þar með má segja að Eiður hafi kvatt þennan heim með hreint borð.

Síðustu erfiðu árin sýndi Eiður á sér nýja hlið, varð miklu ræðnari og opnari. Með þessu urðu kynni okkar enn dýpri og nánari. Hann sýndi mikið æðruleysi og þrek fram á síðustu stund. Við erum full af þakklæti fyrir að njóta tryggðar og vináttu Eiðs. Far þú í friði, góði vinur.

Almar Grímsson og Anna Björk Guðbjörnsdóttir.

Okkar líf er ekkert grín,

alltaf sama rokið,

nú hefur andans orkan mín

út í buskann fokið.

Þannig orti Eiður Ágúst Gunnarsson í kvæðinu „Tilveran“ í febrúar árið 2003. Þá var hann farinn að finna fyrir sjúkdómnum sem lagði hann að velli laugardaginn 15. júní 2013. Þótt honum hafi á þeim tíma fundist andans orkan fokin út í buskann lætur hann eftir sig falleg kvæði í ljóðabókinni „Í sólinni“ eftirlifendum til ómældrar gleði og ánægju. Innviðir listamanns eru margslungnir og Eiður orti ekki bara ljóð og tefldi skák heldur bar falleg bassarödd hann á vængjum söngsins til Austurríkis og Þýskalands í fylgd yndislegrar eiginkonu, Lucindu Grímsdóttur og Gríms Inga sem Eiður gekk í föðurstað.

Þau hjónin og Grímur voru mér afar kær, allt frá því að ég kynntist þeim vegna starfs míns við Ríkisóperuna í Aachen þar sem Eiður söng einnig. Fallega heimilið þeirra í Aachen-Richterich varð eiginlega mitt annað heimili og athvarf Íslendinga sem þar dvöldu við nám eða vinnu. Þau hjónin voru mjög samhent, en ólík. Eiður bláeygður og ljós yfirlitum, íhugull og rólegur, Lucinda dökk á brún og brá, skörp og skemmtileg.

Eiður var orðinn mjög veikur en hugurinn leiftrandi þegar við Rafn vorum í síðasta heimboði þeirra hjóna. Eiður lék af öllum mætti á píanóið söngva sem hann hafði útsett fyrir bassarödd með fallegri rithönd af mikilli smekkvísi og kunnáttu. Sú mynd af honum verður ætíð greypt í huga mér. Hann hafði svo mikið að gefa en sem betur fer eru til góðar hljóðritanir af söng hans handa komandi kynslóðum. Eiður kvaddi mig með því að gefa mér nótnasafnið sitt og auðmjúk mun ég geyma það og segja söngnemendum mínum frá góðum dreng og söngvara sem það einu sinni átti.

Votta ég Lucindu, syni þeirra Grími Inga, fjölskyldu, vinum og vandamönnum samúð mína og fjölskyldu minnar. Blessuð sé minning góðs vinar.

Anna Júlíana Sveinsdóttir.