Sigrid Valtingojer myndlistarmaður fæddist í Teplitz-Schönau í Súdetahéraði í Tékklandi 18. mars 1935. Hún lést á sjúkrahúsi í Berlín 8. maí 2013.

Foreldrar hennar voru Siegfried og Katharina Plaschka. Systur Sigrid eru Christa Krauss og Almut Senger-Porter. Dóttir Christu og eiginmanns hennar Jochen Krauss er Gabriele Krauss. Almut var tvígift. Fyrri eiginmaður hennar var Allan Porter. Sonur þeirra er Alexander. Með seinni eiginmanni sínum Arnold Senger á hún Ines og Anja.

Eiginmaður Sigrid var Richard Valtingojer. Þau skildu.

Árið 1945 var fjölskylda Sigrid svipt eignum sínum og rekin brott frá heimaslóðum. Fjölskyldan fór þá yfir Zinnwald í Erzgebirge til Keula í Thüringen. Þar bjuggu þau í eitt ár en fluttust á tímabilinu til Jena sem þá þegar var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan yfir sovésku landamærin til Aschaffenburg við Main. Sigrid lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Aschaffenburg og námi í fatahönnun við hönnunarskóla í Frankfurt og Vín. Á árunum 1955 til 1958 stundaði hún nám við Institut für Modegrafik í Frankfurt. Í Þýskalandi vann hún sem fatahönnuður og auglýsingateiknari. Sigrid fluttist til Íslands árið 1961. Eftir komuna til Íslands starfaði hún við auglýsingateiknun á Auglýsingastofu Ásgeirs Júlíussonar en síðar sjálfstætt. Árið 1979 lauk Sigrid prófi frá Myndlista- og handíðaskóla Ísland en varð seinna stundakennari við grafíkdeild sama skóla í hálfan annan áratug. Árið 1990 var hún bæði gestakennari og gestalistamaður við Kyoto-Seika listaháskólann í Kyoto. Á árunum 2001 til 2002 dvaldi hún í Barcelona og var við framhaldsnám við Winchester-listaháskólann þar. Sigrid hélt fjölda einkasýninga, bæði hérlendis og erlendis, og verk hennar eru í varðveislu og eigu helstu listasafna víða um veröld. Hún hlaut einnig ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar þar á meðal Grand Prix 1987 á Alþjóða grafíksýningunni í Biella á Ítalíu. Sigrid hafði ríka réttlætiskennd. Umhverfis- og friðarmál áttu hug hennar fram á síðasta dag og hún var ötul baráttukona fyrir frjálsri Palestínu. Fyrir tíu árum heimsótti hún Palestínu sem sjálfboðaliði en hélt einnig sýningar bæði á Íslandi og í Þýskalandi sem hún tileinkaði málstaðnum.

Minningarathöfn um Sigrid Valtingojer fer fram í Iðnó í dag, 24. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Mín kæra vinkona, Sigrid Valtingojer, lést í Berlín 9. maí sl. Tveimur mánuðum áður, kvöldið áður en hún hélt til Berlínar, sat hún hér í stofunni hjá mér og við spjölluðum yfir tebolla. Hún var létt í lund og sagðist vera búin að pakka og gera allt klárt fyrir ferðina, svo að núna gæti hún tekið því rólega fram eftir kvöldi. Hún sagðist hlakka til að koma í Berlínarvorið og að hitta vinina þar; – en hún sagðist líka vera farin að hlakka til að koma aftur heim í byrjun júní – í íslenska sumarið, og svo hló hún glettnislega.

Ég hitti Sigrid fyrst á vori 1961 í stóru kvennaboði hjá Amalíu Líndal. Þegar Amalía bauð mér, sagði hún að ég þyrfti endilega að hitta þýskan tískuteiknara sem væri nýkominn frá Berlín. Ég kom nokkuð síðbúin í boðið en Amalía tók glaðlega á móti mér og sagði: „Ó, ég ætla að kynna þig strax fyrir þýska tískuteiknaranum“. Svo leiddi hún mig inn í stóra stofu þar sem stór hópur masandi kvenna var saman kominn. Amalía dró mig áfram í gegnum gestahópinn og staðnæmdist fyrir framan konu sem stóð þar ein við gluggann, og kynnti okkur. Þetta var Sigrid. Ég hafði búist við, að umræddur tískuteiknari væri meiri háttar fansí-glansí dama. En þarna stóð Sigrid, svo hógvær og blátt áfram. Hún var látlaus í klæðaburði og þykka, dökka hárið féll slétt niður að öxlum. Fallega brosið hennar höfðaði strax til mín, við tókum tal saman – og töluðum saman allt samkvæmið. Þetta var upphaf rúmlega hálfrar aldar vináttu.

Það var bæði gaman og dýrmætt að eiga Sigrid fyrir vinkonu. Hún var traust, heiðarleg og hreinskilin. Hún var skemmtileg og hafði góða kímnigáfu. Sem vinur hafði hún mikla samkennd og umhyggju. Það var sannarlega gaman að sitja með Sigrid og spjalla yfir kaffi- eða tebolla. Oft byrjaði slíkt spjall á léttari nótunum, um daginn og veginn og eitthvað sem hafði gerst þann og þann daginn. En oftast, svona áður en við vissum af, vorum við fljótt komnar í dýpri og alvarlegri samræðu um málefni, sem stundum tengdust líðandi stund – og stundum tengdust þau liðinni tíð. Sigrid var mjög meðvituð, bæði um það sem var að gerast úti í hinum stóra heimi og hér á meðal okkar. Sigrid kunni vel að meta góðan mat og góð vín. Hún elskaði lífið, hún elskaði börn, hún elskaði sanna vini og hún elskaði íslenska náttúru. Hún hafði ferðast mjög víða um Ísland, yfir holt og hæðir og vaðið ár. Sigrid var mjög vandvirk og vel að sér á ýmsum sviðum. Hún var víðlesin og fróð. Í hógværð sinni hafði hún af miklu að miðla. Það var mikil sorgarfrétt að heyra um andlát Sigridar. Enda þótt Sigrid sé dáin þá mun hún ætíð verða ljóslifandi í hjarta mér og huga og ég mun ætíð með þakklæti búa að þeirri gjöf sem vinátta hennar gaf mér.

Sigríður Björnsdóttir.

Kveðja frá Félaginu Íslensk grafík

Fágun og fagmennska einkenndu grafíklistamanninn Sigrid Valtingojer. Hún var hreinskiptin og vildi engar málamiðlanir þegar kom að listinni. Hún tók þátt í fjölmörgum sýningum á vegum félagsins en var sjálf fyrst og fremst framsækinn listamaður fram í fingurgóma og var virk í sýningahaldi. Hún hlaut ótal viðurkenningar fyrir verk sín, sótti sér næringu og innblástur þar sem hægt var að sækja hann og var óþreytandi að leita á nýjar slóðir. Allt sem frá henni kom bar sterk höfundareinkenni og myndheimur hennar var bæði heillandi og sterkur. Hún var ákveðin í því sem hún tók sér fyrir hendur hvort sem var sýningahald eða kennsla, en átti líka til að bera þennan listræna elegans sem verður ekki lærður heldur er í blóð borinn, var skemmtileg á góðri stundu og hafði gaman af að spjalla um hvaðeina. Sem félagsmaður í félaginu Íslensk grafík lá hún ekki á liði sínu en var íhugul og lét sig málefnin varða, forvitin um það sem var á döfinni og sótti viðburði og fundi heim er hún átti þess kost. Það er sannarlega sjónarsviptir fyrir íslenska grafík að hafa þessa frábæru konu ekki lengur í okkar röðum. Verk hennar munu þó halda merki hennar á lofti um ókomna tíð svo og drjúgur þáttur hennar í kennslu margra samtímalistamanna í grafíklistum. Samferðamönnum sínum var hún mikill styrkur, en fyrst og fremst söknum við mannneskjunnar Sigrid Valtingojer, skarð hennar er vandfyllt.

F.h. stjórna og nefnda ÍG,

Soffía Sæmundsdóttir

formaður.