Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
Frá Birni S. Stefánssyni: "Þegar sagt var frá því skömmu eftir hvítasunnu, að skriða hefði fallið í Ystafelli í Þingeyjarsýslu, varð nokkur umræða um það, hvort segja ætti Ystafell í Kaldakinn eða Köldukinn."

Þegar sagt var frá því skömmu eftir hvítasunnu, að skriða hefði fallið í Ystafelli í Þingeyjarsýslu, varð nokkur umræða um það, hvort segja ætti Ystafell í Kaldakinn eða Köldukinn. Varla finnur nokkur að því, að hér er sagt eftir hvítasunnu, en ekki eftir hvítusunnu, það er að lýsingarorðið skuli ekki beygjast í föllum. Nefnt var, að sveitin kynni að vera kennd við kalda, og því væri rétt, að það héti Kaldakinn í öllum föllum. Svo kom ráðunautur Útvarpsins og kvað upp úr með þetta með því að fara með vísuorð eftir Jónas Hallgrímsson, og þar með lauk umræðunni. Í máli hans heyrðist vitaskuld ekki, hvernig vísuorðið var ritað.

Mér þykir gott að hlýða dómsorði Jónasar, en hvaða dóm kvað hann upp? Í heildarritverki Jónasar er vísuorð hans þannig:

Nú er sumar í köldu kinn

Kunnáttumenn telja vísuna orta í Skagafirði, langt frá hinni svölu Kinn Þingeyjarsýslu. Vísað er til skáldsins Hannesar Péturssonar, sem álítur, að kalda kinn sé ís-land.

Það eru fleiri orð en hvítasunna, þar sem lýsingarorðið hefur ekki beygst í föllum. Upp úr 1900 kom kennari á Skeið í Árnessýslu og vildi venja börnin af að segja á Votamýri eða á Langamýri, en svo heita jarðir þar í sveit, heldur skyldu þau segja á Votumýri og á Löngumýri. Það tók meira en hálfa öld að koma þessari kennaramálfræði á, ef það hefur þá tekist alveg. Um miðja 19. öld bréfar Gísli Konráðsson Langamýri, eins og nú er skrifað Hafnarfirði, þegar bréfritari kynnir aðsetur, en þar bjó hann um tíma (í Hólminum í Skagafirði). Þetta er áreiðanlega horfið. Í munni sumra er jafnvel nefnifallið orðið Löngumýri. Djúpavík á Ströndum og Breiðavík í Rauðasandshreppi eru dæmi um heiti með óbeygðan fyrri hluta í máli sumra heimamanna.

Annars heitir það frekar Kinn en Kaldakinn í Þingeyjarsýslu, svo sem Ystafell í Kinn og Ófeigsstaðir í Kinn. Svo var einnig út í frá, þegar talað var um prestssetrið, sem var, þá var sagt Þóroddsstaður í Kinn.

BJÖRN S. STEFÁNSSON,

dr. scient.

Frá Birni S. Stefánssyni

Höf.: Birni S. Stefánssyni