Ungir hollvinir Hellisgerðis Allir aldurshópar gátu fundið sér skemmtun við hæfi í 90 ára afmæli Hellisgerðis.
Ungir hollvinir Hellisgerðis Allir aldurshópar gátu fundið sér skemmtun við hæfi í 90 ára afmæli Hellisgerðis. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is „Hér voru tónleikar sem enduðu með harmonikkuballi, eins og var oft hér í gamla daga.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

„Hér voru tónleikar sem enduðu með harmonikkuballi, eins og var oft hér í gamla daga. Þá kom fólk hingað til þess að dansa undir harmonikkuleik og við reyndum að endurvekja það og fengum allar kynslóðir til þess að dansa saman,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir, formaður Hollvinafélags Hellisgerðis. Í dag eru 90 ár liðin frá því að málfundafélagið Magni stofnaði Hellisgerði, sem er náttúruperla í miðbæ Hafnarfjarðar, og af því tilefni héldu bæjarbúar upp á afmælið í gær.

Mikill metnaður var lagður í hátíðarhöldin og segir Ragnhildur að vel hafi tekist til. „Dagskránni lauk á harmonikkuballi með hljómsveit Svenna Sigurjóns en fyrr um daginn komu fram White Signal og TutTugu, sem eru ungar hljómsveitir úr Hafnarfirði, og Sara Blandon, sem sló í gegn í Ævintýrum Munkhásens í Gaflaraleikhúsinu, en einnig Pollapönk og Jón Jónsson sem allir þekkja,“ segir Ragnhildur um tónlistaratriðin á hátíðinni.

90 ára gamalt ræðupúlt

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, setti hátíðina í gær í ræðupúlti sem félagar úr málfundafélaginu Magna komu fyrir í Hellisgerði fyrir 90 árum. „Eins og góðu málfundafélagi sæmir var þeirra fyrsta verk að setja upp ræðupúlt. Það er enn í fínu lagi og því var tilvalið að Guðrún Ágústa setti hátíðina þar,“ segir Ragnhildur.

Merkileg listaverk

Í Hellisgerði eru merkileg listaverk. Fyrir rúmum 70 árum var sett upp stytta eftir Ásmund Sveinsson við gosbrunn í garðinum, en styttan ber nafnið „Yngsti veiðimaðurinn“. Ragnhildur segir að upphaflega hafi styttan verið úr steinsteypu og með árunum hafi hún orðið lúin og því verið fjarlægð. „Þá fundust teikningar að styttunni í safni Ásmundar og var hún þá steypt í brons og þannig stendur hún núna. Ég er rosalega ánægð með það,“ segir Ragnhildur.

Einnig er lágmynd eftir Ríkharð Jónsson af Guðmundi Einarssyni úr Magna, en hann fékk hugmyndina að garðinum. Upphaflega fjármögnuðu Magnamenn ræktun garðsins með harmonikkuböllum, en þá var rukkað inn og garðurinn girtur af. „Þetta var mjög vinsælt og skemmtilegt í sögulegu ljósi að við skyldum ljúka dagskránni með harmonikkuballi í gærkvöldi,“ segir Ragnhildur að lokum.