Hef hann Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, í baráttu við Hólmbert Aron Friðjónsson, leikmann Fram, í sólskininu á Hásteinsvelli í gær.
Hef hann Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, í baráttu við Hólmbert Aron Friðjónsson, leikmann Fram, í sólskininu á Hásteinsvelli í gær. — Ljósmynd/Sigfús
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í EYJUM Júlíus G. Ingason sport@mbl.is Leikur ÍBV og Fram á Hásteinsvelli í gær fer seint í sögubækurnar sem skemmtilegasti knattspyrnuleikur sögunnar og er líklega nær því að vera einn sá leiðinlegasti.

Í EYJUM

Júlíus G. Ingason

sport@mbl.is

Leikur ÍBV og Fram á Hásteinsvelli í gær fer seint í sögubækurnar sem skemmtilegasti knattspyrnuleikur sögunnar og er líklega nær því að vera einn sá leiðinlegasti. Fyrstu fimmtán mínúturnar voru reyndar nokkuð líflegar en eftir það var eins og allur vindur væri úr leikmönnum beggja liða í rokinu í Eyjum. En Eyjamönnum dugði að sýna glansandi fínan sambabolta undir lok leiksins þegar þeir skoruðu eina mark leiksins.

Það var í raun ótrúlegt að fylgjast með leiknum því mistök leikmanna voru ótrúlega mörg og varla að liðin næðu upp fleiri en þremur eða fjórum sendingum sín á milli. Einhverjir leikmenn kvörtuðu yfir því eftir leikinn að völlurinn hefði verið stamur og erfitt að hemja boltann. Það er góð og gild afsökun en leikmenn hefðu átt að læra inn á aðstæður þegar leið á leikinn. Það gerðu þeir varla, nema kannski helst Ian Jeffs. Sá sýndi aldeilis snilldartilþrif með félaga sínum Matt Garner en saman spiluðu þeir sig glæsilega í gegnum vörn Fram og Gunnar Már Guðmundsson rak svo smiðshöggið á stórgóða sókn Eyjamanna.

Sóknarleikur Framara í leiknum, sérstaklega í síðari hálfleik olli miklum vonbrigðum enda áttu þeir ekkert skot sem hitti á mark ÍBV. Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson reyndi eins og hann gat en fékk ekki mikinn stuðning frá félögum sínum. Framliðið er hins vegar skipað snjöllum fótboltamönnum sem geta miklu betur, rétt eins og leikmenn ÍBV. Það virtist bara eitthvað vera í loftinu sem varð til þess að lítið gekk.

Ljótur leikur

Sigurinn gerir það að verkum að Eyjamenn halda í við toppliðin á meðan Fram er áfram um miðja deild. „Þetta var örugglega einn ljótasti leikur sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV eftir leikinn. „Ég veit ekki af hverju leikurinn þróaðist svona, menn áttu erfitt með að ná spili í gang, völlurinn var þurr og erfiður og þetta voru mest kýlingar fram. Við náðum einu sinni upp þokkalegu spili í leiknum og það skilaði marki. Við erum góðir í að spila boltanum okkar á milli eins og sást einu sinni í leiknum. Ef við ætlum að vera í efri hlutanum, þá eru þetta þeir leikir sem við þurfum að vinna og við tökum þessum þrem stigum fegins hendi.“

„Það var algjör óþarfi að missa þetta niður í tap. Þetta var baráttuleikur og hvorugt lið að skapa sér merkileg færi. Það gekk bara ekki upp það sem við lögðum upp með fyrir leikinn og því fór sem fór. Það var kannski ekkert mjög mikið að gera hjá mér í markinu sem gerir þetta kannski enn meira svekkjandi. Nú er þessi leikur frá og á morgun undirbúum við okkur bara fyrir næsta leik,“ sagði Ögmundur Kristinsson, fyrirliði Fram.

ÍBV – Fram 1:0

Hásteinsvöllur, Pepsi-deild karla, 8. umferð, sunnudag 23. júní 2013.

Skilyrði : Stífur vindur til að byrja með, sól og þurrt. Völlur leit vel út.

Skot : ÍBV 8 (6) – Fram 6 (0).

Horn : ÍBV 7 – Fram 4.

Lið ÍBV : (4-4-2) Mark : David James. Vörn : Arnór Eyvar Ólafsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Brynjar Gauti Guðjónsson, Matt Garner. Miðja : Tonny Mawejje, Gunnar Þorsteinsson, Ian Jeffs, Ragnar Pétursson (Bradley Simmonds 67.). Sókn : Víðir Þorvarðarson (Aaron Spear, 85.), Gunnar Már Guðmundsson.

Lið Fram: (4-3-3) Mark . Ögmundur Kristinsson. Vörn : Alan Lowing, Bjarni Hólm Aðalsteinsson (Halldór Arnarsson, 23.), Ólafur Örn Bjarnason, Jordan Halsman. Miðja : Halldór Hermann Jónsson, Viktor Bjarki Arnarsson (Haukur Baldvinsson, 70.), Sam Hewson. Sókn : Almarr Ormarsson, Hólmbert Aron Friðjónsson, Steven Lennon.

Dómari : Garðar Örn Hinriksson – 7.

Áhorfendur : 1.008.

1:0 Gunnar Már Guðmundsson 83 . skoraði með skoti úr markteig eftir glæsilegan undirbúning Ian Jeffs.

Gul spjöld :

Ólafur Örn (Fram), 18. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

M

Aron Eyvar Ólafsson (ÍBV)

Eiður Aron Sigurbjörnsson (ÍBV)

Ian Jeffs (ÍBV)

Tonny Mawejje (ÍBV)

Víðir Þorvarðarson (ÍBV)

Ögmundur Kristinsson (Fram)

Ólafur Örn Bjarnason (Fram)