Á hverjum einasta samráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar, mörg ár aftur í tímann, hafa fjárframlög ríkisins til refaveiða verið á blaði. Þetta segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Þetta er alltaf á blaði vegna þess að þarna hefur hlutum farið aftur,“ segir Halldór og bætir við að sambandið líti málið alvarlegum augum og hafi raunar gert það í mjög mörg ár. „Við höfum margítrekað bent ríkinu á að það hefur verið að draga sig mikið út úr þessum málum, þannig að það er fjárskortur í þessu,“ segir Halldór og bætir við: „Vandamálið er það að landstærstu sveitarfélögin, þar sem það segir sig sjálft að flestar tófur eiga heima, það eru oft íbúafæstu sveitarfélögin. Þannig að þetta er svona dæmi um verkefni þar sem það er mjög slæmt að ríkið sé að draga sig út vegna þess að eftir verður fjármögnun sveitarfélags sem er nú kannski ekki alltof aflögufært fyrir.“ skulih@mbl.is