Fréttaskýring
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Mikil þörf er á að efla og styrkja þjónustu við aldraða, umönnun þeirra og forvarnir til að bæta aðstæður og líðan eldra fólks. Þetta kemur fram í nýútkomnu riti OECD og Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem ber heitið A good life in old age? Hlutfall aldraðra meðal aðildarþjóða OECD fer hækkandi og útgjöld vegna umönnunar og hjúkrunar eldri borgara vex hröðum skrefum.
Eftir því sem eldra fólki fer fjölgandi og meðalaldur hækkar, eykst þörfin fyrir umönnun og aukna þjónustu við aldraða. Talið er að fjöldi þeirra sem verða 80 ára og eldri muni vaxa úr 3,9% af heildarmannfjölda í OECD löndunum í 9,1% árið 2050. Ætlað er að um helmingur þessara eldri borgara muni þurfa á aðstoð og aðhlynningu að halda í daglegum athöfnum í framtíðinni. Útgjöld eru talin munu tvöfaldast eða jafnvel þrefaldast til ársins til 2050 vegna mikillar fjölgunar eldra fólks sem þarf á langtímaumönnun að halda.
Ævilíkur eldra fólks lengjast. Árið 2010 gátu 65 ára gamlar konur í OECD-löndunum að meðaltali búist við að eiga 21 ár ólifað en karlarnir 17 ár. Íslendingar eru ekki ofarlega á þessum lista en þó aðeins fyrir ofan meðaltal OECD landanna eða í 21. sæti en Japanir tróna á toppnum skv. ritinu.
Hlutfall þeirra sem ná 80 ára aldri í löndum OECD eru taldar aukast úr 4% mannfjöldans í tæplega 10% árið 2050. Ísland er í 23. sæti meðal þjóðanna þegar metnar eru ævilíkur fólks sem náð hefur 80 ára aldri og eru Íslendingar þar undir meðaltali OECD. Þessar tölur stinga nokkuð í stúf við þá staðreynd sem alþekkt er að Ísland hefur um langt skeið verið í hópi þjóða þar sem lífslíkur eru hæstar. Ástæða þessa munar sem fram kemur á ævilíkum aldraðra á milli landa er sú að þegar meðalævilengd er reiknuð, er sýnt fram á hversu mörg æviár einstaklingur getur búist við að lifa frá fæðingu. Ungbarnadauði er minnstur á Íslandi meðal Evrópuþjóða skv. upplýsingum Hagstofunnar. Ef hins vegar er metið hversu mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifuð reiknað frá upphafi tiltekins aldursskeiðs á efri árum, eins og gert er í riti OECD og ESB, standa margar þjóðir okkur framar í samanburðinum.
33% 75 ára og eldri með skerta færni til daglegra athafna
Fram kemur í ritinu að rannsóknir hafa leitt í ljós að um 60% Evrópubúa, 75 ára og eldri, búa við skerta færni í daglegum athöfnum vegna sjúkdóma eða af öðrum heilsufarsástæðum. Mikil áhersla er lögð á að stuðlað verði að sjálfsbjargargetu eldra fólks eins og kostur er. Í ritinu er reynt að bera saman milli landa hversu stór hluti eldra fólks býr við skerta færni og þarf á umönnun eða vistun að halda.Ísland sker sig hér nokkuð úr ásamt Noregi og Svíþjóð vegna þess hversu stór hluti eldri borgara hér er sjálfbjarga í daglegu lífi.
Hér er hlutfall 75 ára og eldri sem þurfa að lifa við skerta færni í daglegu lífi lægst meðal 23 þjóða sem sá samanburður nær til. Á Íslandi er hlutfall 75 ára og eldri sem búa við skerta færni 32,8%. Í löndum þar sem þetta hlutfall er hæst s.s. í Eistlandi, Portúgal og Ungverjalandi þurfa 70-85% 75 ára og eldri á umönnun og aðstoð að halda vegna skertrar færni til daglegra athafna.
BYLTUR STÓRT VANDAMÁL