Brynjar Benediktsson
Brynjar Benediktsson
Grindvíkingar eru komnir með þriggja stiga foyrstu í 1. deild karla í knattspyrnu eftir 3:2-sigur á Leikni úr Reykjavík í sjöundu umferð deildarinnar.

Grindvíkingar eru komnir með þriggja stiga foyrstu í 1. deild karla í knattspyrnu eftir 3:2-sigur á Leikni úr Reykjavík í sjöundu umferð deildarinnar. Tvö rauð spjöld litu dagsins ljós í umferðinni og í Víkinni bjargaði Brynjar Benediktsson stigi fyrir Hauka með tveimur mörkum undir lok leiksins.

Grindvíkingar sluppu í raun með skrekkinn á heimavelli á móti Leikni. Útlitið var reyndar ansi hreint bjart eftir að þeir komust í 3:0 eftir 74 mínútur. Breiðhyltingar gáfust þó ekki upp, minnkuðu muninn tveimur mínútum síðar og enn frekar þremur mínútum eftir það, en tókst ekki að knýja fram jafntefli á þeim tíu mínútum sem eftir lifðu.

BÍ/Bolungarvík, sem var jafnt Grindavík að stigum fyrir leikinn, heimsótti KA og kræktu heimamenn í KA þar í sinn fyrsta sigur á heimavelli í sumar. Dennis Nielsen, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur, fékk sitt annað gula spjald undir lok leiks og því rautt.

Hitt rauða spjaldið kom í Víkinni þar sem Haukar voru í heimsókn. Þar gekk mikið á því sjö gul spjöld og eitt rautt fóru á loft, það fékk Marko Pavlov á 72. mínútu. Víkingar voru 2:0 yfir allt þar til Brynjar Benediktsson minnkaði muninn á 83. mínútu og síðan jafnaði hann með skoti í varnarmann og inn á lokamínútu leiksins.

Þróttur krækti í stig á Selfossi, 2:2, eftir að hafa lent 2:0 undir í fyrri hálfleik.

Fjölnir náði að knýja fram 2:1-sigur á Völsungi með mörkum frá miðvörðum sínum. Seinna markið kom eftir að markvörðurinn hafði slasast og farið af velli og Fjölnismenn því einum færri.

Þá gerðu norðanliðin KF og Tindastóll 1:1-jafntefli

skuli@mbl.is