Viðtal
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Rithringur hefur sent frá sér smásagnasafnið Smásögur 2013 – Þetta var síðasti dagur lífs míns. Safnið er gefið út í rafrænu formi en verður fljótlega gefið út í kilju. Í bókinni eru tuttugu sögur eftir átján meðlimi Rithringsins. Í fyrra gaf Rithringur út Smásögur 2012 í rafrænu formi á emma.is. Rósa Grímsdóttir, stjórnandi Rithringur.is útgáfunnar, segir að sú útgáfa hafi heppnast vel og því hafi verið ákveðið að gefa út annað smásagnasafn.
„Með útgáfunni í fyrra vorum að reyna eitthvað nýtt og renndum blint í sjóinn, þótt nokkrir innanborðs hefðu reynslu af sjálfsútgáfu. Þessi útgáfa gekk svo vonum framar,“ segir Rósa. „Við í Rithringnum nýttum okkur reynsluna af fyrri útgáfunni í þá næstu. Það hjálpaði okkur mikið að hafa gert þetta áður og þess vegna var útgáfan nú auðveldari. Við betrumbættum ýmislegt til dæmis varðandi uppsetningu, umbrot og yfirlestur. Til að hjálpa okkur með prentun og dreifingu á kiljunni fengum við til liðs við okkur bókaútgáfuna Óðinsauga en kiljan er væntanleg í búðir í haust.
Sögurnar í smásagnasafninu í fyrra fengu góðar viðtökur og voru mjög fjölbreyttar. Að þessu sinni ákváðum við að byggja allar sögurnar upp á upphafssetningu sem einnig er titill bókarinnar: Þetta var síðasti dagur lífs míns. Skiljanlega voru ekki allir meðlimir í fyrri útgáfunni sáttir við að þurfa að fylgja fastákveðinni upphafssetningu og vildu meira frelsi. Þeir voru því ekki allir með í þetta sinn en aðrir sem höfðu ekki áður skrifað fyrir okkur bættust í hópinn og höfundarnir eru alls átján. Rétt eins og gamli hópurinn var er þess hópur einnig blanda af útgefnum höfundum og þeim sem eru að gefa út í fyrsta sinn.“
Farið í alls kyns áttir
Eru þetta mjög ólíkar sögur?„Út frá upphafsetningunni spunnust alls kyns sögur, þar á meðal furðusögur, vísindasaga, saga um dreka og saga um síðasta daginn í lífi kattar. Það var farið í alls kyns áttir. Sjálf skrifaði ég sögu sem er óður til skáldskaparlistarinnar og fjallar um höfund sem missir skáldskapargáfuna en endurheimtir hana og það ríður honum eiginlega að fullu. Svo eru þarna tvær samvinnusmásögur þar sem meirihluti meðlima skiptist á að skrifa. Við ætluðum að hafa einungis eina slíka sögu en það tók svo skamman tíma að ljúka við hana að það var ákveðið að skrifa aðra sem fór út í enn meiri vitleysu en sú fyrri. Sú seinni átti að verða sjálfstætt framhald af fyrri sögunni en einhverjir meðlimir áttuðu sig ekki á því og streittust gegn því að fylgja söguþræði fyrri samvinnusögunnar. Svo var sagan skrifuð í aðdraganda kosninga og pólitík blandaðist inn í hana. Útkoman varð ansi skrýtin en mjög skemmtileg. Það stendur svo til að gefa sögurnar út í kilju í haust. Rafbókin er tiltölulega ný og það eru ekki allir sem lesa rafbækur þannig að okkur finnst við ná til fleiri lesenda með kiljuútgáfu.“
Hvernig gengur að halda stórum hópi eins og Rithring saman?
„Það eru allir velkomnir á Rithringinn og fjölmargir skráðir í hópinn, sumir eru mjög virkir og vilja taka þátt í öllu en aðrir halda sig til hlés. Rithringur var stofnaður árið 2003 og á því tíu ára afmæli í ár og héldum upp á það með smásagnakeppni. Rithringur er góður stökkpallur fyrir fólk sem hefur skrifað fyrir skúffuna og vill koma verkum sínum á framfæri og það fær yfirlestur, rökræður og gagnrýni á verk sín frá öðrum meðlimum. Andrúmsloftið er jákvætt og þarna eru uppbyggilegar umræður um allt milli himins og jarðar, jafnvel Eurovison, þótt við reynum að halda okkur aðallega við bækurnar. Margir sem byrjuðu á Rithringnum hafa síðan gefið út bækur hjá bókaforlögum, eins og til dæmis Arndís Þórarinsdóttir.“
Verður framhald á útgáfu hjá ykkur?
„Það er mikil áhugi innan Rithringsins á útgáfu og hugmyndin er að næst komi út jólasmásögur í október, þannig að það segja að við stefnum á jólamarkaðinn. Þær sögur koma út í kilju en það er ekki enn ákveðið hvort þær koma út rafrænt. Þar sem Óðinsauga er komin í samstarf við okkur allavega hvað varðar kiljuútgáfu er spennandi að sjá hvernig það samstarf þróast og hvort að það hjálpi ekki Rithringur.is útgáfunni að opna fleiri dyr. Um daginn fór ég á fund hjá Snöru.is að kanna möguleikann á Streymisbókum en það er næsta skrefið á eftir rafbókum og tvímælalaust það sem koma skal. Þær samningaviðræður eru enn í gangi. Það er því fullt af spennandi hlutum framundan hjá útgáfunni.“
Bókin gerð lifandi
Hvað ert þú að skrifa þessa dagana?„Ég þurfti að leggja furðusagnabókaflokkinn minn Línu Descret til hliðar í bili til að stjórna útgáfunni ásamt meðstjórnanda mínum Auði A. Hafsteinsdóttur, en upphaflega stóð til að önnur bókin í flokknum kæmi út næsta haust. En ég lagði skrifin ekki algerlega á hilluna og hef aðallega verið að vinna í myndabandaskáldsögu sem kallast Endless Breakfast með Friðriki bróður mínum en við stefnum að því að frumsýna fyrsta myndbandið á youtube á hrekkjavökunni í október. Þetta hryllings-gaman-drama þar sem fjallað er um einelti, er á mörkum þess að vera kvikmynd með þó nokkrum texta og svo skapa tónlist og hljóð ákveðna stemningu. Hugmyndin með myndinni er að gera bókina meira lifandi. Þegar maður les bók er maður einn en í þessu tilviki geta margir komið saman til að lesa texta af skjá, enda ekki ósvipuð upplifun og horfa á kvikmynd saman. Það má segja að þessi mynd sé í ætt við flash comics eða hreyfimyndasögur og jafnvel á mörkum teiknimyndar. Friðrik lærði japönsku í Háskólanum þannig að við ætlum líka að hafa myndbandið á japönsku. Ég fer í Kvikmyndaskólann í haust og hyggst nýta mér það nám m.a við gerð þessa forms. Form sögunnar ætti líka að þjóna því hlutverki að auka áhuga ungmenna á lestri á svipaðan hátt og teiknimyndir hafa gert. Undanfarið hefur nokkuð verið talað um ólæsi og myndbandaskáldsaga er vel til þess fallin að auka lestraráhuga ungs fólks. En fyrst og fremst á auðvitað að vera hægt að njóta sögunnar á eigin forsendum.“
SMÁSAGNASAFN RITHRINGS
Síðasti dagur lífs míns
Eftirtaldir höfundar eru með sögur í smásagnasafninu:Auður A. Hafsteinsdóttir,
Árný Stella Gunnarsdóttir,
Birgir Rúnar Davíðsson,
Einar Leif Nielsen,
Elísabet Kjerúlf,
Fjalar Sigurðarson,
Hákon Gunnarsson,
Hildur Enóla,
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir,
Júlíus Valsson,
Ragnar Örn Steinarsson,
Róbert Marvin Gíslason,
Rósa Grímsdóttir,
Sigrún Erna Hákonardóttir,
Sigurður Blöndal,
Sirrý Sig og
Svana Bjarnadóttir.