Kvennasveitir Íslands stóðu sig afar vel í báðum boðhlaupunum í Evrópukeppni landsliða í Slóvakíu um helgina og fengu báðar silfur. Fyrst náðu þær Björg Gunnarsdóttir , Hafdís Sigurðardóttir , María Rún Gunnlaugsdóttir og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir silfri í 4x100 metra hlaupi á 46,52 sekúndum. Í 4x400 metra hlaupinu í gær kom svo Aníta Hinriksdóttir inn í sveitina í stað Maríu Rúnar. Sveitin hljóp á 3:39,14 mínútum og varð í 2. sæti, aðeins 19/100 úr sekúndu á eftir sveit Slóvakíu eftir að hafa haft forystu lengst af.
Ísland vann til bronsverðlauna í sex greinum eins og fram kemur í greininni hér til hliðar. Arndís Ýr Hafþórsdóttir vann til tvennra af þeim, í bæði 3.000 og 5.000 hlaupum. Hún hljóp 3.000 metrana á 10:04,75 mínútum og 5.000 metrana á 17:26,11 mínútum.
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir spreytti sig í kúluvarpi eins og hún hefur gert af og til, og varð í 3. sæti með 13,65 metra kasti.
Íslandsmethafinn Sandra Pétursdóttir vann til bronsverðlauna í sleggjukasti með 50,62 metra kasti. Sandra, sem er búsett í Danmörku sem stendur við nám og æfingar, var að keppa í fjórða sinn í Evrópukeppni landsliða og var þetta hennar besti árangur hingað til.
M ark Johnson var á sínu öðru móti fyrir Íslands hönd og náði 3. sæti í stangarstökki. Mark fór yfir 5,10 metra í 2. tilraun, eftir að hafa einnig notað tvær tilraunir við 5 metra, en hann felldi svo 5,20 metra tvívegis. Aðeins var leyfilegt að fella rána fjórum sinnum í heild á mótinu.
Þó auðvitað hafi ekki allir Íslendingar náð verðlaunum í Slóvakíu þá ber að geta þess að margir bættu einnig sinn besta árangur. Þannig má bæta því við að þeir Hlynur Andrésson í 3000 m hlaupi, Helgi Björnsson í 110 m grindahlaupi, Arnar Pétursson í 3000 m hindrunarhlaupi og Bjarki Gíslason í þrístökki náðu allir að bæta sig á mótinu.
Rússland vann efstu deild Evrópukeppninnar en keppt var í Englandi. Kýpur og Ísrael féllu úr 2. deild niður í deild Íslands, eftir eins árs veru þar. Slóvenía og Litháen komust upp í 1. deild.