Hlutir í hugbúnaðarfyrirtækinu Oracle féllu um 9,3% á föstudag vegna frétta um að frammmistaða á fjórða rekstrarársfjórðungi hefði ekki staðið undir væntingum.
Þar með er ekki sagt að reksturinn standi illa en Oracle skilaði hagnaði upp á 3,8 milljarða dala, 80 sentum á hlut, á fjórðunginum sem endaði 31. maí. Sala á tímabilinu nam 11 milljörðum. Er þetta svipuð frammistaða og á sama tímabili fyrir ári þegar fyrirtækið seldi fyrir 10,9 milljarða og skilaði hagnaði upp á 3,5 milljarða dala eða 69 sentum á hlut.
Stjórnendur Oracle segja að ef ekki hefði verið fyrir tilfallandi kostnaðarliði hefði fyrirtækinu tekist að ná spám markaðsgreinenda sem höfðu vænst hagnaðar upp á 87 sent á hlut.
Whirlpool fær á sig vaxtaskell
Heimilistækjaframleiðandinn Whirlpool lækkaði líka hressilega á föstudag. Hlutir féllu um 5,8% og rekur MarketWatch lækkunina til möguleikans á að agaðri peningamálastefna stjórnvalda muni hækka vexti og þar með draga úr eftirspurn eftir raftækjum fyrir heimilið.Meðal þeirra sem sóttu í sig veðrið á föstudag var samskiptavefurinn Facebook. Hækkuðu hlutir í veldi Zuckerbergs um 2,6% og enduðu í 24,53 dölum. Er hækkunin skrifuð á að vefurinn bætti við hreyfimynda-möguleika í vinsæla ljósmyndadeiliforritinu Instagram. ai@mbl.is