Langfyrst Aníta Hinriksdóttir, t.v. kemur langfyrst í mark í 1.500 m hlaupinu í 3. deildarkeppni Evrópmóts landsliðs í Slóvakíu í gær. Stúlkan við hliðina á Anítu er frá Aserbaídsjan og átti hring eftir. Slíkur voru yfirburðir Anítu sem hjó nærri þriggja áratuga gömlu meti Ragnheiðar Ólafsdóttur í hlaupinu.
Langfyrst Aníta Hinriksdóttir, t.v. kemur langfyrst í mark í 1.500 m hlaupinu í 3. deildarkeppni Evrópmóts landsliðs í Slóvakíu í gær. Stúlkan við hliðina á Anítu er frá Aserbaídsjan og átti hring eftir. Slíkur voru yfirburðir Anítu sem hjó nærri þriggja áratuga gömlu meti Ragnheiðar Ólafsdóttur í hlaupinu. — Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í SLÓVAKÍU Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég fer með góðar minningar héðan.

Í SLÓVAKÍU

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég fer með góðar minningar héðan. Maður stefnir alltaf á að bæta sig á svona stóru móti og ég er mjög ánægð með þennan árangur,“ sagði Aníta Hinriksdóttir hlaupadrottning úr ÍR sem að öðrum ólöstuðum var stjarna mótsins þegar Ísland keppti í 3. deild Evrópukeppni landsliða í Banská Bystrica í Slóvakíu um helgina.

Aníta sló eigið Íslandsmet í 800 metra hlaupi á frábærum tíma, 2.01,17 mínútum, og tryggði sér um leið farseðilinn á HM í Moskvu, sem fram fer í ágúst, fyrst Íslendinga þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gömul. Hún vann hlaupið með miklum yfirburðum líkt og 1.500 metra hlaupið í gær þar sem hún hjó nærri Íslandsmeti Ragnheiðar Ólafsdóttur og kom í mark á 4.16,50 mínútum eða 1,56 sekúndum frá metinu.

„Ég var ekki alveg viss um við hverju mætti búast frá keppinautunum þannig að þetta kom aðeins á óvart,“ sagði Aníta um yfirburði sína en áhorfendur á SNP-leikvanginum gátu ekki leynt aðdáun sinni þegar Aníta skildi keppinauta sína eftir og náði meira að segja að „hringa“ þá hægustu.

Einblíni á HM unglinga

„Ég var sérstaklega kát með 800 metra hlaupið. Það stóð auðvitað upp úr og ég reyndi að fylgja því eftir í 1.500 metra hlaupinu. Það byrjaði reyndar frekar hægt svo ég veit að ég á eitthvað inni þar,“ sagði Aníta svo ljóst er að Ragnheiður gæti þurft að sjá á eftir meti sínu áður en sumarið er úti.

Þó Aníta sé ein Íslendinga komin með farseðilinn á HM fullorðinna er ekki þar með sagt að hún þiggi sæti. Hún er með hugann við HM 17 ára og yngri í Úkraínu 10. júlí, og EM 19 ára og yngri á Ítalíu viku síðar.

„Það er svo mikið af verkefnum hjá mér í sumar að það er ekki ákveðið hvort ég fer til Moskvu. Ég þarf að melta þetta og ræða við þjálfarana mína. Ég einblíni helst á HM unglinga. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir það mót, þessi árangur um helgina, en þetta er ekki besti tíminn í heiminum í dag. Það er ein bandarísk rosalega góð og fleiri á svipuðu róli og ég. Ég stefni bara á að komast í úrslit í Úkraínu,“ sagði Aníta.

„Það væri auðvitað gaman að fara á HM fullorðinna en ég á eftir að vera lengi í þessu og fæ vonandi fleiri tækifæri til að keppa þar. Það eiga fleiri Íslendingar eftir að ná lágmarki í sumar, ég er viss um það. Tímabilið er rétt að byrja,“ bætti þessi bráðefnilega hlaupakona við.