Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sent ríkisstjórn Íslands bréf þar sem henni er gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæru Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Íslandi og hefur ríkisstjórnin frest til 26. september nk. til að skila greinargerð, að því er fram kemur í tilkynningu frá Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs.
Þá er jafnframt leitað afstöðu ríkisins til þess hvort málsmeðferðin samrýmist banni við því að sami aðili sæti tvöfaldri refsimeðferð fyrir sama brot, samanber 1. málsgrein 4. greinar 5. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.
Auk Jón Ásgeirs standa Tryggvi Jónsson og Fjárfestingafélagið Gaumur að kærunni en þeir telja að brotið hafi verið á mannréttindum sínum með þeim hætti að þeim hafi verið refsað tvisvar sinnum fyrir sama brotið. Þannig hafi ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd, eftir rannsókn skattayfirvalda, lagt 25% álag á skatta þeirra fyrir árin 1998 til 2002 en síðar hafi Hæstiréttur dæmt þá í skilorðsbundið fangelsi og gert þeim að greiða sektir fyrir brotin.
skulih@mbl.is