Á fyrstu fjórum mánuðum ársins var 111 heimilislausum karlmönnum vísað frá Gistiskýlinu í Reykjavík vegna plássleysis. Á sama tíma í fyrra var 24 karlmönnum vísað frá af sömu ástæðu.
Fjallað var um málið á síðasta fundi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.
Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, kom á fundinn og kynnti stöðu utangarðsfólks í Reykjavík. Eftir umræður lét mannréttindaráð bóka hvatningu til þess að húsnæðisvandi Gistiskýlisins, sem ætlað er heimilislausum körlum í borginni, verði leystur sem allra fyrst.
Biðröð fyrir utan húsnæðið
Þórir Haraldsson, yfirmaður í Gistiskýlinu, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að þessi mikla eftirspurn eftir húsaskjóli væri óvenjuleg og biðröð væri farin að myndast fyrir utan húsnæðið áður en opnað væri.Hann sagði að langtímaáhrif kreppunnar væru að koma í ljós.
Gistiskýlið, sem er í Þingholtsstræti, er rekið í samvinnu við Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Þar eru rúm fyrir tuttugu manns. Skýlið er opið frá klukkan 17 til klukkan 10 næsta dags, alla daga ársins.