Hvalveiðar Hvalskurðarmenn vinna á vöktum við að gera að hvölum sem veiðast. Meira en 160 manns vinna við veiðar og verkun hvalanna.
Hvalveiðar Hvalskurðarmenn vinna á vöktum við að gera að hvölum sem veiðast. Meira en 160 manns vinna við veiðar og verkun hvalanna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fjórum langreyðum var landað í Hvalstöðinni í Hvalfirði í gær. Hvalur 9 kom fyrst að landi um tíuleytið í gærmorgun með tvo hvali og svo kom Hvalur 8 með aðra tvo á fjórða tímanum í gær.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fjórum langreyðum var landað í Hvalstöðinni í Hvalfirði í gær. Hvalur 9 kom fyrst að landi um tíuleytið í gærmorgun með tvo hvali og svo kom Hvalur 8 með aðra tvo á fjórða tímanum í gær. Alls var búið að landa ellefu langreyðum í gærkvöldi frá því að hvalveiðivertíðin hófst viku fyrr.

„Þetta er þrusugangur. Það er frábær stemning hér í Hvalstöðinni, ekkert verri en í gamla daga,“ sagði Gunnlaugur F. Gunnlaugsson stöðvarstjóri í gær. „Þetta er alltaf sama tilfinningin.“ Hann sagði að hvalirnir sem komið var með í gær hefðu verið mjög góðir.

Unnið nótt og dag

Í Hvalstöðinni vinna 90 manns á átta stunda vöktum við hvalskurðinn. Stór hluti af þeim er skólafólk en einnig reyndir hvalskurðarmenn sem mæta þegar hvalveiðar eru stundaðar.

„Við erum með mikið af fólki sem hefur verið hér áður. Það kemur alltaf aftur og aftur,“ sagði Gunnlaugur. Hver starfsmaður stendur tvær vaktir annan sólarhringinn og eina vakt hinn.

Til stóð að vinna í alla nótt við að ganga frá hvölunum sem landað var í gær og endist vinnan við þá allan daginn í dag einnig, að sögn Gunnlaugs. Kjöt, rengi, spik og sporðar fara í frystingu. Beinin eru söguð niður og soðið úr þeim lýsi og síðan búið til mjöl úr þeim, innyflum og afskurði í Hvalstöðinni. Aðal-frystingin er í Hvalstöðinni en einnig vinna 30 manns við frystingu hvalaafurða á Akranesi og 15 í Hafnarfirði. Auk þess eru 26 manns í áhöfnum hvalbátanna tveggja, 13 á hvorum báti. Alls hafa því 161 vinnu við hvalveiðarnar í sumar að ótöldum þjónustustörfum við hvalveiðarnar. Fullráðið er hjá Hval hf., að sögn Gunnlaugs.

Stöðugur straumur vöruflutningabíla er með hvalaafurðir niður á Akranes og til Hafnarfjarðar meðan á hvalskurðinum stendur enda skepnurnar stórar.

Gunnlaugur sagði að langreyðarnar væru misþungar en hann áætlaði að um 60 feta löng langreyður (18,3 metrar) gæti vegið 40-50 tonn þegar hún er dregin úr sjó.

VEIÐAR Á LANGREYÐI

154

langreyðar má veiða 2013

161

beint starf er við veiðar og vinnslu

20.600

dýr er langreyðarstofninn við Ísland