Hækkun skatta á fólk og fyrirtæki var yfirgengileg á síðasta kjörtímabili og án efa nærri því að vera met á alþjóðavísu, ekki ósvipað metinu sem þáverandi stjórnarflokkar slógu í kosningaósigri, en að vísu með öfugum formerkjum.
Víst má telja að þetta tvennt séu ekki óháðir atburðir. Fólk var búið að fá nóg af skattahækkununum og nýju sköttunum og gjöldunum, en samtals voru hækkanirnar orðnar vel á annað hundrað og í lok kjörtímabilsins héldu aðeins örfáir endurskoðendur í við hækkanirnar með talningu.
Þessar gegndarlausu skattahækkanir hafa leikið heimili landsmanna grátt og sömuleiðis atvinnulífið sem hefur mátt þola miklu lengri efnahagserfiðleika en ætlað hafði verið vegna þess að ríkisstjórnin mátti hvergi fjármuni eða tekjur sjá án þess að vilja leggja á ofurskatta.
Þetta eru þær aðstæður sem ný ríkisstjórn tekur við. Skattar hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi svo augljóst er að meðal brýnustu verka er að vinda ofan af hækkununum og létta þessu þunga fargi af heimilum og atvinnulífi svo hvort tveggja megi blómstra.
Ríkisstjórnin nýja hefur enn sem komið er aðeins stigið fá og afar varfærin skref í þessa átt. Meðal þessara skrefa er breyting á veiðigjöldum sem hækkar þau á sum fyrirtæki, lækkar á önnur, en dregur nokkuð úr gjaldtökunni á heildina litið frá því sem vinstristjórnin hafði ráðgert.
Nauðsynlegt er í þessu sem öðru að þekkja söguna og horfa á hlutina í samhengi. Í þeim umræðum um lækkun skatta sem vonandi munu fara fram á næstu mánuðum og misserum er óhjákvæmilegt að líta til þeirra yfirgengilegu skattahækkana síðustu ríkisstjórnar sem dundu yfir þjóðina allt síðasta kjörtímabil. Fráleitt er að líta svo á að skattkerfið eins og sú ríkisstjórn skildi við það geti verið einhver útgangspunktur í umræðu um skattabreytingar og að hægt sé að líta svo á að ríkissjóður sé að gefa eitthvað eftir og tapa fé séu skattar lækkaðir frá þeim ofursköttum sem vinstristjórnin hafði lagt á.
Þegar horft er á veiðigjöldin, af því að þau eru í umræðunni um þessar mundir, er nauðsynlegt að skoða þróun þeirra á liðnum árum þegar meta á hvort verið er að hækka þau eða lækka. Gjöldin eru ekki ný og höfðu verið lögð á árum saman þegar vinstristjórnin hafði ekki aðeins hækkað almenna veiðigjaldið heldur einnig bætt við svokölluðu sérstöku veiðigjaldi sem margfaldaði skattheimtuna og kippti fótunum undan fjölda sjávarútvegsfyrirtækja.
Þessi margföldun á skattheimtu, sem tók fyrst gildi fyrir yfirstandandi fiskveiðitímabil og var keyrð illa undirbúin í gegnum þingið, getur vitaskuld ekki verið viðmiðun þegar ný ríkisstjórn tekur gjaldtökuna til endurskoðunar. Sá vanhugsaði ofurskattur vinstristjórnarinnar sem kallaður er sérstakt veiðigjald á ekki rétt á sér og sú breyting sem nú er áformuð hlýtur aðeins að vera fyrsta skrefið á þeirri leið að afnema hann og koma á gjaldtöku í sjávarútvegi sem er heilbrigð, sanngjörn, gagnsæ og kippir ekki grundvellinum undan fyrirtækjunum í greininni.
En það er ekki aðeins í sjávarútveginum sem þessi meginregla þarf að gilda. Ný ríkisstjórn verður á öllum sviðum, ekki síst á sviði skattheimtu þar sem vinstristjórnin fór áður óþekktu offari, að gæta þess að verk og viðhorf vinstristjórnarinnar fái ekki að skína í gegnum þær ákvarðanir sem teknar verða. Vinstristjórninni var varpað á dyr með sögulegu sparki kjósenda og umboð nýrrar ríkisstjórnar til endurskoðunar á verkum hennar og lagfæringa á misgjörðunum er því óvenjulega skýrt.
Þetta þarf nýja ríkisstjórnin að nýta til fulls með skýrri sýn á helstu verkefni, greinargóðum útskýringum til almennings á nauðsyn lagfæringa og með því að ráðast hiklaust á þann vanda sem vinstristjórnin hefur hlaðið upp. Ríkisstjórnin þarf að losa landsmenn við þau verk sem þeir í kosningunum sýndu að þeir kærðu sig ekkert um.