Atgangur Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórsara, gerist hér nærgöngull við mark Stjörnunnar en til varnar eru Robert Sandnes og Ingvar Jónsson.
Atgangur Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórsara, gerist hér nærgöngull við mark Stjörnunnar en til varnar eru Robert Sandnes og Ingvar Jónsson. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á AKUREYRI Andri Yrkill Valsson sport@mbl.

Á AKUREYRI

Andri Yrkill Valsson

sport@mbl.is

Leikur Þórs og Stjörnunnar bauð upp á allt sem góður knattspyrnuleikur getur boðið upp á: Mörk, umdeild atvik, lipra takta, dauðafæri og ekki skemmir fyrir ef spjöld af báðum litum líta dagsins ljós, en það varð einmitt raunin í þessum leik. Ekki lét veðrið sitt eftir liggja heldur svo útkoman varð hin besta skemmtun. Liðin enduðu á að skipta stigunum á milli sín eftir að hafa skorað hvort sitt markið í fyrri hálfleik, lokatölur 1:1, þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið góða möguleika á að stela sigrinum undir lokin.

Stjarnan byrjaði betur og kom boltanum í netið eftir hornspyrnu strax í upphafi leiks en það var þó dæmt af. Allt var hins vegar eftir bókinni þegar Veigar Páll kom þeim yfir eftir tæplega hálftíma leik og það með skallamarki þrátt fyrir að vera með lágvaxnari mönnum í teignum. Hann átti heldur betur eftir að koma meira við sögu í leiknum en þegar tæplega hálftími var til leiksloka fékk hann að líta rauða spjaldið fyrir olnbogaskot. Það virtist þó koma lítið við Garðbæinga sem voru áfram sterkari og að auki vel á verði gagnvart skyndisóknum andstæðingsins.

Vörnin hélt velli

Þórsarar eru líklegast þakklátastir fyrir að hafa haldið aftur af lekanum í vörninni og fá einungis eitt mark á sig, sérstaklega á móti liði sem hefur verið á jafnmiklu skriði og Stjarnan. Páll Viðar þjálfari hélt þó áfram að hrókera varnarleiknum sem hefur verið þeirra akkilesarhæll í allt sumar en slapp fyrir horn í þessum leik og ekkert meira en það. Óöryggið var oft mikið og sömuleiðis samskiptin við Rajkovic í markinu. En skipulagið í heild gekk að stórum hluta upp og stóðust menn freistinguna að æða strax upp í sókn eftir að hafa orðið manni fleiri heldur héldu uppteknum hætti í spilamennskunni. Mark Tubæk var öflugur fram á við en fyrirgjafir hans voru eitraðar og jafnaði Hlynur Atli einmitt eftir eina slíka. Hann mætti hins vegar hjálpa liði sínu betur varnarlega.

Stjörnumenn gerðu hlutina sem lið og það er erfitt að velja einstaklinga sem stóðu sérstaklega upp úr. Þrátt fyrir að sýna kannski engan stjörnuleik spilaði liðið einfaldan en jafnframt árangursríkan bolta, nýttu kantana vel og fyrirgjafirnar skiluðu sínu sem skapaði hættu. Vörnin var þó nokkuð mistæk í upphafi og var Jóhann Þórhallsson drjúgur gegn þeim og var meðal annars ósáttur að fá ekkert fyrir sinn snúð eftir að hafa verið felldur í teignum. Eftir að hann fór af velli vegna meiðsla var annar og betri bragur á þeim Laxdalsbræðrum og félögum í öftustu víglínu og hafði Ingvar það nokkuð náðugt í markinu þar fyrir aftan. Eins og áður sagði virtist ekki koma að sök að lenda manni undir og er það kostur góðra liða að halda dampi við mótlæti. Logi Ólafsson er að gera virkilega flotta hluti með liðið og þótt hann hafi eflaust haft augastað á þremur stigum fyrir leikinn má ætla að hann sé nokkuð sáttur við niðurstöðuna miðað við hvernig hlutirnir æxluðust. En það var ekki einungis fjör inni á vellinum því baráttan var ekki síðri í stúkunni þegar stuðningsmannasveitirnar tókust á og sungu hvor gegn annarri. Allt fór það fram í mesta bróðerni og mætti vera enn meira um þetta á Íslandi, enda aldrei hægt að hafa of mikla stemningu meðal áhorfenda.

0:1 Veigar Páll Gunnarsson 29. með skalla eftir fyrirgjöf Atla Jóhannssonar frá hægri.

1:1 Hlynur Atli Magnússon 40. stökk hæst í miðjum vítateig og skoraði með skalla eftir frábæra aukaspyrnu Marks Tubæks frá vinstri kanti.

Gul spjöld :

Funicello (Þór) 51. (brot), Ármann Pétur (Þór) 63. (brot), Garðar (Stjörnunni) 68. (mótmæli), Tubæk (Þór) 90. (brot)

Rauð spjöld :

Veigar Páll (Stjörnunni) 66. (brot).

M

Atli Jens Albertsson (Þór)

Edin Beslija (Þór)

Mark Tubæk (Þór)

Atli Jóhannsson (Stjörnunni)

Jóhann Laxdal (Stjörnunni)

Robert Sandnes (Stjörnunni)

Þór – Stjarnan 1:1

Þórsvöllur, Pepsi-deild karla, 8. umferð, sunnudag 23. júní 2013.

Skilyrði : Léttur andvari að norðan og heiðskírt. Völlurinn lítur alltaf betur og betur út.

Skot : Þór 8 (3) – Stjarnan 11 (4).

Horn : Þór 2 – Stjarnan 8.

Lið Þórs : (4-3-3) Mark : Srdjan Rajkovic. Vörn : Giuseppe Funicello, Hlynur Atli Magnússon, Atli Jens Albertsson (Janez Vrenko 81.), Ingi Freyr Hilmarsson. Miðja : Mark Tubæk, Orri Freyr Hjaltalín, Ármann Pétur Ævarsson (Chukwudi Chijindu 81.). Sókn : Sveinn Elías Jónsson, Jóhann Þórhallsson (Edin Besljia 36.), Jóhann Helgi Hannesson.

Lið Stjörnunnar: (4-3-3) Mark : Ingvar Jónsson. Vörn : Jóhann Laxdal, Martin Rauschenberg, Daníel Laxdal, Robert Sandnes. Miðja : Michael Præst, Veigar Páll Gunnarsson, Atli Jóhannsson. Sókn : Ólafur Karl Finsen (Kennie Chopart 62.), Garðar Jóhannsson, Halldór Orri Björnsson.

Dómari : Magnús Þórisson – 5.

Áhorfendur : 830.