Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling flaug fyrsta flug sitt til Keflavíkurflugvallar aðfaranótt síðastliðins föstudags. Þar með bættist Vueling í hóp 16 flugfélaga sem fljúga til 70 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli í sumar. Þegar flugvélin fór aftur til Spánar voru um 75% farþeganna Íslendingar.
Vueling ætlar að fljúga á milli Keflavíkurflugvallar og El Prat flugvallar í Barcelona tvisvar í viku.
Vueling er næststærsta flugfélagið á Spáni. Það er með höfuðstöðvar á El Prat flugvelli í Barcelona og er með áætlunarflug til meira en eitt hundrað áfangastaða í Evrópu, Asíu og Afríku. Ísland er nú komið í hóp 32 nýrra áfangastaða sem Vueling flýgur til í sumar.