Viðamikil og spennandi sjóminjasýning var opnuð í gömlu Skreiðarskemmunni á Höfn á þjóðhátíðardaginn sl. Á þessari sýningu er gerð grein fyrir sjósókn Hornfirðinga fyrr og nú, bæði í firðinum og á hafi úti; humarveiði, sílagöngum inn á fjörðinn, lúruveiði, saltfiski og skreið og sagt frá hrakningum og björgun á sjó. Myndarlegt fuglabjarg var útbúið og þar er fjöldi sjófugla til sýnis.
Við opnunina skoðuðu bæjarbúar sýninguna undir harmonikkuspili og gæddu sér á harðfiski, kleinum og flatkökum með hangikjöti. Margir minntust þess að í Skreiðarskemmunni hefðu þeir unnið sér inn sína fyrstu sumarhýru.
Sjóminjasýningin í Skreiðarskemmunni á Höfn verður opin alla daga í sumar frá kl. 8 að morgni til kl. 8 að kvöldi, og aðgangur er ókeypis. Því er um að gera að líta þar við.