Vinnustaður Víkverja skrýðist nú sínu fegursta. Munar þar ekki síst um lúpínuna, sem er að springa út með sínum fallega bláma. Víkverji er, eins og gefur að skilja, mjög hrifinn af bláum lit og telur því lúpínu til mikillar prýði.
Vinnustaður Víkverja skrýðist nú sínu fegursta. Munar þar ekki síst um lúpínuna, sem er að springa út með sínum fallega bláma. Víkverji er, eins og gefur að skilja, mjög hrifinn af bláum lit og telur því lúpínu til mikillar prýði. Einhverjir af samstarfsfélögum Víkverja, þó ekki allir, eru hins vegar ósammála honum og hafa gjarnan uppi stór orð og gífuryrði á borð við illgresi og njólarætur. Víkverja rennur þá blóðið til skyldunnar og ver sitt blóm með kjafti og klóm.
Í síðustu sennu um lúpínuna tók Víkverji þó líklega aðeins of stórt upp í sig þegar hann lagði það til málanna að lúpínan væri hið eina sanna þjóðarblóm sem minnti okkur á forfeðurna: Harðger innflytjandi sem blómgast við verstu aðstæður og undirbýr jarðveginn fyrir aðra. Vinnufélagarnir tóku dræmt í þau rök og sögðu lúpínuna frekar minna á útrásarvíkinga en venjulega víkinga þar sem hún kæfði alla samkeppni og nyti sín bara í góðæri. Líklega dugar ekkert annað en þjóðaratkvæðagreiðsla til að skera hér úr um.
Víkverji er mikið fyrir tyllidaga og þá sérstaklega ef þeim fylgir myndarlegt helgarfrí. Rauðir dagar eru góðir dagar í dagatalinu og stundum lífsnauðsyn fyrir fólk sem hefur unnið hart og þarf að hlaða rafhlöðurnar. Víkverji er hrifinn af tillögu Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa um að færa til frídaga þannig að helgin lengist. 17. júní í ár lenti til dæmis mjög skemmtilega á mánudegi og veitti því kærkomna lausn frá daglegu mánudagsamstri.