Bíða Snowden Tugir blaðamanna frá öllum heimshornum biðu Edward Snowden þegar hann kom til Moskvu í gær. Hann lét sig hins vegar hverfa í bíl frá sendiráði Ekvador áður en blaðamenn náðu tali af honum.
Bíða Snowden Tugir blaðamanna frá öllum heimshornum biðu Edward Snowden þegar hann kom til Moskvu í gær. Hann lét sig hins vegar hverfa í bíl frá sendiráði Ekvador áður en blaðamenn náðu tali af honum. — AFP
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Fréttaskýrendur reyndu fram eftir degi í gær að rýna í það hvert för uppljóstrarans Edward Snowden væri heitið.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Fréttaskýrendur reyndu fram eftir degi í gær að rýna í það hvert för uppljóstrarans Edward Snowden væri heitið. Snowden ferðaðist í gær frá Hong Kong til Moskvu þar sem hann lenti um miðjan dag og fram kom að hann hefði pantað sér flugfar til Kúbu. Voru strax leiddar líkur að því að för Snowden væri heitið til Ekvador sem meðal annars hefur veitt forsprakka Wikileaks, Julian Assange, pólitískt hæli og dvelur hann í sendiráði landsins í London. Hins vegar var haft eftir Øystein Jakobsen, leiðtoga Pírataflokksins í Noregi, á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK að hann teldi að Snowden væri ekki á leið til Suður-Ameríku heldur hygðist hann fara til Íslands í gegnum Noreg. Þær upplýsingar reyndust hins vegar ekki réttar og Ricardo Patino utanríkisráðherra Ekvador tók af öll tvímæli um áfangastað Snowden þegar hann lýsti því yfir í tísti á Twitter að Snowden hefði formlega beðið um hæli í landinu.

Ógiltu vegabréfið

Eins og fram hefur komið lét Snowden fjölmiðlum í té upplýsingar um víðtækt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA). Snowden er fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Bandarísk stjórnvöld hafa gefið út handtökuskipun á hendur Snowden og í fyrradag ógiltu stjórnvöld vegabréf hans til þess að reyna að koma í veg fyrir að Snowden myndi yfirgefa Hong Kong. Þeim varð þó ekki að ósk sinni og flaug hann frá borginni þrátt fyrir að vera formlega án vegabréfs.

Fram kom í tilkynningu frá Wikileaks í gær að Snowden ferðaðist í fylgd með ónafngreindum erindrekum sem veita honum lagalega ráðgjöf. Þykir honum nokkur vandi á höndum sökum þess að hann er með ógilt vegabréf í farteskinu en talið er að hann hyggist fljúga til Kúbu á morgun áður en hann fer til Ekvador. Bandarísk stjórnvöld hafa óskað eftir því við rússnesk stjórnvöld að Snowden verði framseldur en ekki hefur verið brugðist við kröfunni.

Bretar njósna líka

Uppljóstrun Snowden hefur komið fleirum en bandarískum stjórnvöldum í vanda. Nýlega birti breska dagblaðið The Guardian frétt byggða á skjölum sem blaðið fékk fyrir tilstilli uppljóstrana Snowden, um að breska leyniþjónustan hefði stundað það að hlera grunnnetið sem alþjóðleg símtöl og netnotkun fara um og safnað gríðarlegu magni upplýsinga með þeim hætti. Fram kom í frétt AFP í gær að þýsk stjórnvöld vildu að breskir ráðamenn myndu bregðast við þessum ásökunum. Haft er eftir Sabine Leutheusser-Schnarrenberger, dómsmálaráðherra Þýskalands, að það væri „stórslys“ ef þær reyndust sannar. Einu viðbrögð stjórnvalda í Bretlandi til þessa hafa verið á þá leið að aðgerðir leyniþjónustunnar hafi verið innan ramma laganna.

Edward Snowden
» Snowden kom til Moskvu frá Hong Kong í gær.
» Hann hefur sótt um pólitískt hæli í Ekvador.
» Bandarísk stjórnvöld hafa ógilt vegabréf Snowden og óskað eftir því að rússnesk stjórnvöld framselji hann.
» Fram kemur í skjölum sem Snowden lét af hendi að Bretar hafi hlerað grunnnetið sem alþjóðleg símtöl og netið fara um.