Markahæstur Fernando Torres er markahæstur í álfukeppninni.
Markahæstur Fernando Torres er markahæstur í álfukeppninni. — AFP
Riðlakeppni álfukeppninnar í knattspyrnu lauk í gær í Brasilíu og þá skýrðist hvaða lið munu mætast í undanúrslitum.

Riðlakeppni álfukeppninnar í knattspyrnu lauk í gær í Brasilíu og þá skýrðist hvaða lið munu mætast í undanúrslitum. Það verða annars vegar Spánn og Ítalía og hins vegar Úrúgvæ og Brasilía og því ljóst að úrslitaleikurinn verður á milli Evrópuþjóðar og þjóðar frá Suður-Ameríku. Fyrri undanúrslitaleikurinn verður á miðvikudaginn þegar Brasilía og Úrúgvæ mætast en sá síðari á fimmtudaginn. Úrslitaleikurinn sjálfur og leikurinn um þriðja sætið verður síðan sunnudaginn 30. júní.

Abel Hernández var í miklum ham í liði Úrúgvæ í gær þegar liðið mætti Tahiti og hafði næsta öruggan sigur því Úrúgvæar gerðu átta mörk en leikmönnum Tahiti tókst ekki að skora. Hernández, sem leikur með Palermo á Ítalíu, gerði helming marka Úrúgvæa í gær, fjögur talsins, en Úrúgvæar skoruðu fjögur mörk í hvorum hálfleik. Hernández er næstmarkahæsti maður mótsins með sín fjögur mörk. Luis Suárez kom inná sem varamaður og skoraði tvívegis.

Fimmta markið hjá Torres

Markahæstur er hins vegar Spánverjinn Fernando Torres, sem hefur gert fimm mörk. Hann skoraði eitt af þremur mörkum heimsmeistara Spánverja þegar þeir lögðu Afríkumeistara Nígeríu 3:0 í gær og hin fjögur gerði hann í 10:0-sigri á Nígeríu um daginn. Athyglisverður árangur hjá pilti þar sem hann hefur aðeins leikið í 120 mínútur á mótinu. Hin tvö mörk Spánverja í gær gerði Jordi Alba.

Á laugardaginn kláraðist A-riðill þegar Mexíkó vann Japan 2:1 í leik sem engu máli skipti og þar gerði Javier Hernández tvö mörk fyrir Mexíkó. Í hinum leiknum tryggðu Brasilíumenn sér sigur í riðlinum með því að leggja Ítalíu 4:2. Dante kom Brasilíu yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks, en Giaccherini jafnaði í upphafi þess síðara. Neymar gerði glæsimark úr aukaspyrnu á 55. mínútu og Fred bætti við tveimur mörkum en Chiellini skoraði fyrir Ítalíu á milli þeirra marka.

skuli@mbl.is