Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Verð á gullli tók skarpa dýfu á fimmtudag og hafði í lok viðskipta á föstudag ekki sýnt nein batamerki að ráði. Únsan lækkaði um 87,70 dali á fimmtudag, eða um 6,4% og endaði í 1.285,90 dölum. Greinir Wall Street Journal frá því að verð á gulli hafi ekki verið lægra síðan í september 2010.
Framvirkir samningar á gulli með afhendingartíma í ágúst hækkuðu lítilsháttar á föstudag eða um 0,89% og enduðu í 1.297,70 dölum en framvirkir samningar á gulli féllu um samtals 95,60 dali á únsuna í vikunni sem leið.
Dýfan er rakin til ummæla formanns bandaríska seðlabankans, Bens Bernankes, þar sem gefið var í skyn að dregið yrði úr skuldabréfakaupunum sem bankinn hefur notað frá í nóvember 2008 til að dæla fjármagni inn í bandaríska hagkerfið.
Verð á gulli þykir m.a. endurspegla hvaða líkur markaðurinn telur á verðbólgu. Hefur markaðurinn leitað í gull síðustu árin vegna væntinga um að aðgerðir bandaríska seðlabankans verði á endanum til þess að rýra virði dollarsins og hleypa af stað verðbólguhrinu. Með því að draga úr dælingu fjármagns inn í hagkerfið dregur seðlabankinn um leið úr líkunum á verðbólgu og veikingu dollarsins sem svo þýðir að fjárfestar flýja gullið og verð málmsins færist niður.