24. júní 1865 Keisaraskurði var beitt í fyrsta sinn hér á landi. Aðgerðina framkvæmdu Jón Hjaltalín, Gísli Hjálmarsson og tveir franskir læknar. Barnið lifði en móðirin dó skömmu síðar.
24. júní 1865
Keisaraskurði var beitt í fyrsta sinn hér á landi. Aðgerðina framkvæmdu Jón Hjaltalín, Gísli Hjálmarsson og tveir franskir læknar. Barnið lifði en móðirin dó skömmu síðar. Fyrsti keisaraskurður þar sem bæði móðir og barn lifðu var gerður í ágúst 1910.
24. júní 1967
Gullfaxi, fyrsta íslenska þotan, kom til landsins. Hún var af gerðinni Boeing 727 og voru sæti fyrir 119 farþega. Flugvélin var seld úr landi árið 1985.
24. júní 1968
Ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn á Íslandi í fyrsta sinn. Mikill viðbúnaður var vegna fundarins og nokkur mótmæli.
24. júní 1988
Kanadíski söngvarinn og ljóðskáldið Leonard Cohen hélt tónleika í Laugardalshöll, sem var þéttsetin. Þar flutti hann m.a. lögin Suzanne og First We Take Manhattan.
24. júní 2012
Séra Agnes M. Sigurðardóttir, prestur í Bolungarvík, var vígð biskup Íslands, fyrst kvenna. Hún hafði sigrað í biskupskjöri tveimur mánuðum áður, hlaut 64% atkvæða en séra Sigurður Árni Þórðarson 32%.
Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.