Í Skátalundi í Skorradal Bragi með eiginkonu sinni og börnum. Frá vinstri: Þorvaldur, Bragi, Elín og Bryndís.
Í Skátalundi í Skorradal Bragi með eiginkonu sinni og börnum. Frá vinstri: Þorvaldur, Bragi, Elín og Bryndís.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bragi fæddist á Akranesi 24.6. 1933 og ólst þar upp.

Bragi fæddist á Akranesi 24.6. 1933 og ólst þar upp. Hann var í Barnaskóla Akraness, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akranesi 1950, stundaði nám í Iðnskólanum á Akranesi, lauk sveinsprófi í prentiðn (setningu) 1954 og öðlaðist meistarabréf 1957, en lærimeistari hans í prentverki og bókagerð var Hafsteinn Guðmundsson.

Bragi starfaði í tæpa þrjá áratugi í Prentverki Akraness, fyrst við setningu en var þar síðan prentsmiðjustjóri og einn af eigendum fyrirtækisins 1964-82. Á þeim tíma varð prentsmiðjan öflugt og alhliða prentunar- og bókagerðarfyrirtæki.

Bragi stofnaði Hörpuútgáfuna, ásamt eiginkonu sinni, Elínu, 1960. Hann starfaði síðan að bókaútgáfunni samhliða prentsmiðjurekstrinum í rúma tvo áratugi, en Elín sá um skrifstofurekstur útgáfunnar.

Hann hætti í Prentverki Akraness 1982, seldi hlut sinn og sneri sér að útgáfustarfsemi og ritstörfum. Sama ár stofnuðu þau Elín Bókaskemmuna, bóka- og tölvuverslun á Akranesi sem Elín starfrækti með miklum blóma til 1992, er þau seldu verslunina og sneru sér alfarið að rekstri Hörpuútgáfunnnar.

Hörpuútgáfan var síðan seld til Bókaútgáfunnar Sölku 2007, þegar þau hjón hættu rekstrinum fyrir aldurs sakir. Á tæplega hálfrar aldar tímabili gaf útgáfan út á fimmta hundrað bókatitla, en bækur um menn og málefni tengd Akranesi og Borgarfirði skipuðu alltaf stóran sess hjá Hörpuútgáfunni.

Bragi hefur unnið að ritstörfum um áratuga skeið og er enn að. Helstu ritverk hans eru Borgfirzk blanda, 1-8, 1977-84; Lífsreynsla 1-3, 1987-1989; Æðrulaus mættu þau örlögum sínum, 1996; Blöndukúturinn, 1998; Kátir karlar, 2003; Lífskraftur á landi og sjó, 2006; Baráttufólk, 2008; Sporaslóð, 2009; Sæmundarsaga rútubílstjóra, 2010, og Fréttaritarinn Oddur (rafbók og kilja) 2012.

Bragi hefur setið í ritstjórn nokkurra rita, skrifað greinar í blöð og tímarit og unnið þætti fyrir Ríkisútvarpið. Hann sat í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins, í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda 1994-2004, í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar um árabil og í stjórn Bæjar- og héraðsbókasafns Akraness 1966-94, þar af stjórnarformaður í tíu ár. Hann hefur verið virkur í skátastarfi frá 1943, var m.a. félagsforingi Skátafélags Akraness um árabil og fyrsti formaður Æskulýðsráðs Akraness, og hefur starfað í Oddfellowreglunni frá 1960.

Bragi hlaut Borgfirsku menningarverðlaunin 2004, Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2004, varð heiðursfélagi í Félagi íslenskra bókaútgefenda 2004 og Skátafélagi Akraness 2006, hlaut Heiðursmerki Oddfellowreglunnar 2006, Þórshamarinn, heiðursmerki skátahreyfingarinnar 2006 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2007.

Bragi er mikill útivistarmaður, stundar göngur og sund og er virkur í starfi eldri borgara á Akranesi.

Fjölskylda

Bragi kvæntist 25.2. 1956 Elínu Þorvaldsdóttur, f. 18.7. 1935, húsfreyju og fyrrv. verslunarstjóra. Hún er dóttir Þorvaldar Ellerts Ásmundssonar, f. 1909, d. 1965, skipstjóra og útgerðarm. á Akranesi, og Aðalbjargar Bjarnadóttur, f. 1910, d. 1985, húsfreyju.

Börn Braga og Elínar eru Þorvaldur, f. 2.8. 1956, landfræðingur og verkefnisstjóri hjá Orkustofnun en kona hans er Guðrún Jóhannsdóttir, f. 1957, kennari og eru börn þeirra Birna, f. 1989 (dóttir Þorvaldar og fyrri konu hans, Droplaugar Sveinbjörnsdóttur, f. 1957, d. 1993, tannlæknis) og Bragi, f. 2002; Bryndís f. 17.5. 1960, tónlistarkennari og náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun Vesturlands, en maður hennar er Carsten Jón Kristinsson, f. 1952, ljósmyndari hjá Landmælingum Íslands, og eru dætur þeirra Elín, f. 1989 og Guðrún, f. 1991.

Systkini Braga: Kristbjörg, f. 12.8. 1926, d. 8.1. 2006, sjúkraliði á Akranesi; Skúli, f. 14.9. 1930, d. 22.4. 2007, forstöðumaður Lífeyrissjóðs Vesturlands; Birgir, f. 30.9. 1939, fyrrv. verslunarstjóri í Borgarnesi.

Foreldrar Braga: Þórður Ásmundsson, f. 8.1. 1899, d. 21.3. 1971, verkamaður á Akranesi, og Sigríður Hallsdóttir, f. 23.10. 1898, d. 12.12 1982, húsfreyja.

Bragi og Elín verða að heiman með fjölskyldunni á afmælisdaginn.