Tækifæri Þórsarar geta kvatt fallbaráttuna með sigri gegn ÍA á Akranesi í kvöld og farið að líta upp töfluna.
Tækifæri Þórsarar geta kvatt fallbaráttuna með sigri gegn ÍA á Akranesi í kvöld og farið að líta upp töfluna. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
10. umferðin Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Vegna Evrópuleikja FH, KR og Breiðabliks annað kvöld verður aðeins helmingur 10. umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta spilaður í kvöld. Síðari helmingurinn verður spilaður 25. júlí.

10. umferðin

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Vegna Evrópuleikja FH, KR og Breiðabliks annað kvöld verður aðeins helmingur 10. umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta spilaður í kvöld. Síðari helmingurinn verður spilaður 25. júlí.

Á dagskrá eru þrír leikir, þar af tveir gríðarlega mikilvægir leikir í botnbaráttunni þar sem Vesturlandsliðin tvö eru á heimavelli. Í Kaplakrika taka svo Íslandsmeistararnir á móti Fram í leik þar sem FH fer vonandi að sýna sitt rétta andlit.

Þórsarar horfa upp töfluna

„Neðsta deildin“ í Pepsi-deildinni, kjallarinn, þar sem Þór, Keflavík, Ólsarar, Skagamenn og Fylkir hafa komið sér vel fyrir, er alveg einstakt fyrirbæri. Neðstu þrjú liðin hafa unnið þrjá leiki samtals og lítið þarf að gerast til að liðin fljúgi upp töfluna. Það sannaðist þegar Ólsarar, sem höfðu ekki unnið leik fyrir sigurinn gegn Skaganum á sunnudaginn, lyftu sér upp úr botnsæti með fyrsta sigrinum.

Þór er búinn að ná sér í fjögur stig í tveimur leikjum og er nú allt í einu sjö stigum frá fallsæti. Þeir heimsækja Skagann í kvöld og með sigri verða þeir í það minnsta átta stigum frá fallsæti sem er nokkuð þægilegt bil miðað við hvernig botnbaráttan er að spilast.

Eins og Skaginn spilaði gegn Ólsurum bendir fátt til þess að þeir gulu séu að fara að vinna marga fótboltaleiki. Ármann Smári fór út af meiddur og liðið ógnaði varla marki. Handahófskennd mistök Ólsara gáfu gestunum tvö dauðafæri sem þeim mistókst að nýta. Þór er í dauðafæri í kvöld að kveðja falldrauginn og það eflaust langt fram á sumar.

Talandi um dauðafæri. Ólsarar breima nú af sjálfstrausti eftir að hafa unnið sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi. Þeir geta hæglega bætt við öðrum í kvöld þegar sigurlausir Fylkismenn koma í heimsókn.

Aftur fyrsti sigur í Ólafsvík?

Ætli nýliðarnir að halda sér í deildinni verða þeir að sparka í liggjandi menn eins og Fylkismenn eru núna. Í Árbænum virðist allt í molum, innan vallar sem utan, og liðið getur vart keypt sér sigur.

Ólafsvíkingar þurfa þó að passa sig að koma sér niður af bleika skýinu og spila eins og menn því það styttist alltaf í sigurinn hjá Fylki. Þeir hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar að mæta nýliðunum núna og kannski verður fyrsta sigri sumarsins fagnað í Ólafsvík aðra umferðina í röð.

Vakna, FH!

Þrátt fyrir að hafa að mörgu leyti ekki sýnt sitt rétta andlit í sumar eru FH-ingar samt sem áður með jafnmörg stig og á sama tíma í fyrra. Pælið aðeins í því. Ef og þegar FH-lestin kemst á fulla ferð mega hin liðin fara vara sig.

Það væri þó ágætt ef Heimi tækist loks að kveikja almennilega í FH-liðinu. Hann verður allavega ekki sakaður um að reyna ekki nóg eins og sást í viðtölunum eftir bikartapið gegn Stjörnunni. Gæðakolin liggja í grillinu og olían er komin á. Nú þarf bara að finna eldspýturnar og sjá eldinn loga í Kaplakrika.

Leikir kvöldsins
» 18.00 ÍA - Þór
» 19.15 Víkingur Ó. - Fylkir
» 20.00 FH - Fram