Jón Heiðar Gunnarsson
Kjartan Kjartansson
Síðustu daga hefur sést til hvals í Skjálfandaflóa við Húsavík sem sker sig frá öðrum hvölum í útliti.
„Þetta einkennilega dýr er hugsanlega blendingur tveggja stærstu dýra jarðar, steypireyðar og langreyðar,“ segir dr. Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður hvalarannsóknarstöðvar Háskóla Íslands á Húsavík. Starfsmaður ætlar að reyna að ná húðsýni af dýrinu í dag til að staðfesta hvort að um blending sé að ræða.
Daníel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík, telur að dýrið hafi einnig sést fyrir tveimur árum.„Ég veit að leiðsögumennirnir og bátarnir okkar eru búnir að sjá það í [gær]. Þetta er spennandi. Það er í steypireyðarstærð en hyrnan var allt of aftarlega og stór fyrir steypireyð og liturinn líka,“ segir hann.
Ferðamönnum finnst merkilegt að sjá dýrið að sögn Daníels, en ekki síst vegna þess hversu stór og tignarleg dýr hvalir eru.
Tvöföld stærð bátanna
„Þeir eru tvöföld stærðin á bátunum okkar og jafnvel meira. Í gær [fyrradag] var stærsti dagurinn okkar. Fullt af fólki, gott veður og nóg af hval. Svona á sumarið að vera,“ segir Daníel en fyrir utan blendinginn segir hann að mikið sé af hnúfubaki, hrefnu og höfrungi í flóanum. Sumarið hafi gengið vel og vel bókað hjá fyrirtækinu í ferðirnar. „Við erum ekki viss hvort dýrið sé langreyður eða steypireyður. Uggi dýrsins eru svipaður og hjá langreyði en litur þess er í anda steypireyðar,“ segir Marianne. Hún segir slíka blendinga vera afar fágæta í heiminum og að eingöngu séu til örfá staðfest tilvik um tilveru slíkra hvala.„Það er mjög auðvelt að þekkja þetta umrædda dýr þar sem það sker sig úr og er allt öðruvísi en hinar steypireyðarnar í flóanum,“ segir Marianne en þrjár aðrar steypireyðar eru í Skjálfandaflóa um þessar mundir.
Hvalur 8 veiddi blending
„Við höfum fjórum sinnum áður getað staðfest tilveru slíkra blendinga við strendur Íslands, en slík dýr eru mjög sjaldgæf,“ segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.Hann var hluti af vísindateymi sem sannaði fyrst allra að blöndun tveggja hvaltegunda gat átt sér stað.
Hvalveiðibáturinn Hvalur 8 veiddi einkennilega hvalkú aðfaranótt 19. júní árið 1986. Hópur vísindamanna staðfesti fjórum árum síðar að kýrin væri sambland af langreyði og steypireyði. 4