Alltaf koma heimsendamyndirnar á færibandi og nú er röðin komin að World War Z sem byggð er á samnefndri bók Max Brooks. Myndin segir frá Gerry Lane (Brad Pitt), fyrrum starfsmanni Sameinuðu þjóðanna, sem leggst í þá miklu svaðilför að finna upptök heimsfaralds sem snúið hefur nær öllu mannkyni í morðóð dauðyfli.
Spennandi frá fyrstu mínútu
Ekki er lopinn teygður í byrjun kvikmyndarinnar og ekki líður að löngu þar til allur heimurinn er sýktur. Spenningurinn er því fljótur að gera vart við sig og heldur sér nær allan tímann. Tónlist sú er notuð er í myndinni er góð en minnti á köflum full mikið á 28 Days Later , samskonar mynd í leikstjórn Danny Boyle. Raunsæjar samklippur í byrjun myndar eru að sama skapi heldur kunnuglegar þó svo það hafi ekki dregið myndina niður á nokkurn hátt. Í raun er það ekkert nema jákvætt fyrir myndina að vera áþekk 28 Days Later enda er sú kvikmynd einhver besta heimsendaspennumynd sem gerð hefur verið.World War Z er þó oft á tíðum heldur bandarísk ef svo má að orði komast og mörg þemu er einkenna Hollywood troðið inn í myndina. Aðalsöguhetjan er til að mynda fjölskyldufaðir, sem í byrjun myndar hefur sagt skilið við starf sitt sem stríðshetja til að geta eytt meiri tíma með fjölskyldunni, en tekur aftur upp stóru byssurnar til að bjarga heiminum og fjölskyldunni um leið.
Ódýr persónukynning
Það er þó ágætis tilbreyting að aðalsöguhetjan vinni fyrir Sameinuðu þjóðirnar, þrátt fyrir að hún sé vissulega bandarísk. Að sama skapi nær myndin að verða skemmtilega alþjóðleg þar sem Lane og félagar ferðast um allan heiminn til að vinna bug á meininu og heimsækja meðal annars Suður-Kóreu, Ísrael og Wales. Heimsmálin eru einnig í deiglunni og Norður-Kóreu er veitt ákveðin athygli auk þess sem samskipti Bandaríkjanna og Ísraelsríkis eru í sviðsljósinu.Mikið er lagt í sviðsmyndina sem er vissulega góð og leikararnir standa sig prýðilega, þrátt fyrir að myndin hafi á köflum verið hálfgerður einleikur af hálfu Pitts. Leiklistarhæfileikar hans falla stundum í skuggann af þokka hans og frægð en vissulega er hann prýðisleikari og stendur sig ágætlega í viðkomandi mynd. Kynning á persónu hans er þó einstaklega klaufaleg í myndinni en áhorfendur fá ekki beint að kynnast honum í gegnum gjörðir hans. Einhver ofurstinn stendur til að mynda yfir honum og ælir yfir hann, og um leið áhorfendur, hversu stórkostlegur maðurinn sé á vígvellinum og að hann sé sönn hetja. Slíkar persónukynningar eru alltaf fremur ódýrar.
Þeir sýktu temmilega raunsæir
Ef fólk er ekkert að rembast við að lesa á milli lína á meðan á áhorfi stendur þá er um virkilega spennandi mynd að ræða sem heldur athygli áhorfenda frá byrjun til enda. Hún hefði þó getað orðið ennþá betri ef framleiðendur myndarinnar hefðu haft það hugfast að stundum er minna meira, en kvikmyndin var mjög dýr í framleiðslu. Til að mynda eru bestu senur myndarinnar fremur róleg og einföld atriði sem eflaust hafa verið fremur ódýr, miðað við önnur, í framleiðslu.Mikill munur er á svokölluðum uppvakningamyndum og farsóttarmyndum þrátt fyrir að þær séu oft settar undir sama hatt. Þær kvikmyndir í þessum hatti sem leyfa sýktu aðilunum að halda í mannlega eiginleika eru langtum betri en þær sem ekki gera það. Þegar sýktu einstaklingarnir eru farnir að hoppa hæð sína eða klifra upp veggi þá er lítið varið í viðfangsefnið. Þegar viðfangsefnið er talsvert jarðbundnara, og um sýkingu á við hundaæði er að ræða, þá verður myndin um leið miklu raunsærri og betri. World War Z er réttum megin við línuna hvað þetta varðar þrátt fyrir að ýjað hafi verið að því að um uppvakninga hafi verið að ræða.
Davíð Már Stefánsson