Sumarylur Hæsta hitastigið á landinu mældist á Egilsstöðum og í Hallormsstaðarskógi í gær, rúmlega 26 gráður. Íbúar á Austurlandi notuðu tækifærið og settust út í sólina eins og þessi fjölskylda á Egilsstöðum.
Sumarylur Hæsta hitastigið á landinu mældist á Egilsstöðum og í Hallormsstaðarskógi í gær, rúmlega 26 gráður. Íbúar á Austurlandi notuðu tækifærið og settust út í sólina eins og þessi fjölskylda á Egilsstöðum. — Ljósmynd/Hafsteinn Jónasson
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Ekki er útlit fyrir að lát verði á vinda- og úrkomusömu veðri á landinu, að minnsta kosti fram í næstu viku, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Hann líkir veðurfarinu undanfarið við haustlægðir.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Ekki er útlit fyrir að lát verði á vinda- og úrkomusömu veðri á landinu, að minnsta kosti fram í næstu viku, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Hann líkir veðurfarinu undanfarið við haustlægðir.

„Það er atgangur lægða við landið og meiri sviptingar en við eigum að venjast um hásumar. Það eru ekki horfur á því að það verði neinar breytingar í það heila tekið,“ segir Einar.

Veðrið hefur verið sérlega leiðinlegt um landið sunnan- og vestanvert en íbúar á Norður- og Austurlandi hafa þó notið veðurblíðu síðustu daga. Hæsti hitinn á landinu í gær mældist 26,1 gráða við Egilsstaðaflugvöll og á Akureyri fór hitinn einnig yfir 20 gráður. Nú verður hins vegar lát þar á.

Einar segir að undanfarið hafi verið hlý suðvestanátt yfir landinu en í dag koma kuldaskil úr vestri með úrkomu um vestanvert landið. Í kjölfarið fylgir óvenjulegur háloftakuldi miðað við að það er hásumar og honum fylgir uppstreymi og væta. Hitinn verður ekki nema 7-9 gráður. Á laugardag er því spáð að ný lægð myndist og byrji að rigna sunnan- og vestanlands þegar líður á daginn. Á mánudag megi reikna með því að snúist í norðanátt með kólnandi veðri, sérstaklega á Norðurlandi með rigningu eða jafnvel slyddu til fjalla fram á þriðjudag.

„Það sem veldur þessu er háloftakuldinn sem er viðvarandi djúpt fyrir vestan landið. Hann skýtur reglulega afleggjurum til okkar. Fyrir vikið nær veðrið ekki að róast og gera almennilega sumarveðráttu um vestanvert landið eins og við höfum þekkt á undanförnum árum.“

Heitast og kaldast
» Á eftir Egilsstöðum og Hallormsstað mældist hæsti hitinn á láglendi í gær í Ásbyrgi, 25,2 gráður.
» Lægsti hitinn á láglendi var í Ljósalandi í Fáskrúðsfirði þar sem hann var 4,6 °C.
» Mesta úrkoman var á Kvískeri þar sem hún mældist 29 millímetrar.