Húmor „Að gefnu tilefni ætti svo að taka fram að þó að húmorinn sé ef til vill barnalegur, þá er myndin alls ekki við hæfi barna,“ segir m.a. í umsögn.
Húmor „Að gefnu tilefni ætti svo að taka fram að þó að húmorinn sé ef til vill barnalegur, þá er myndin alls ekki við hæfi barna,“ segir m.a. í umsögn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórar: Evan Goldberg og Seth Rogen. Leikarar: Seth Rogen, Jay Baruchel, James Franco, Jonah Hill, Craig Robinson, Danny McBride, Michael Cera og Emma Watson. Handrit: Seth Rogen, Evan Goldberg og Jason Stone. Bandaríkin 2013. 107 mínútur.

Hvernig mun ríka og fræga fólkið bregðast við þegar heimsendir byrjar? Þetta er grunnspurningin að baki myndarinnar This is the End , nýjustu gamanmyndarinnar frá Seth Rogen og Evan Goldberg, höfundum Superbad , Pineapple Express og fleiri álíka gamanmynda. Myndin skartar mörgum af þeim leikurum sem voru í þessum myndum og leika allir sjálfa sig, eða einhvers konar egómanískar útgáfur af sjálfum sér. Þann eina sem vantar í raun og veru er leikstjórinn Judd Apatow, sem hefur gert flestar af þeim gamanmyndum sem leikararnir hér hafa gert saman.

Myndin hefst á því að Jay Baruchel ( Knocked up ) heimsækir Rogen til Los Angeles en þeir eru æskuvinir. Eftir að hafa reykt daginn í burtu ákveða þeir að fara í partí til James Franco ( Spiderman ) til að fagna nýja húsinu hans. Húsið er byggt eins og virki, og inniheldur einhverja þá sjálfhverfustu listmuni sem hægt er að hugsa sér. Í partíinu er margt góðra gesta, Rihanna, Jason Segel úr How I met your Mother , Michael Cera, Jonah Hill og Cristopher Mintz-Plasse úr Superbad og fleiri. Teitin gengur vel þangað til allt í einu mikil læti og óhljóð heyrast: Heimsendir er hafinn. Í kjölfarið fer allt bókstaflega til andskotans og þegar rykið sest eru bara sex manns eftir á lífi í íbúð Francos og við fáum að fylgjast með þeim reyna að lifa heimsendi af. Fljótlega skapast spenna í samskiptum þeirra, sérstaklega á milli uppistandarans Danny McBride og Francos. Þá er viðvarandi spenna á milli Jonah Hill og Jay Baruchel, sem báðir vilja vera bestu vinir Rogens.

Þrátt fyrir drungalegar aðstæður er myndin bara nokkuð fyndin fyrir þá sem kunna að meta þann groddalega húmor sem ræður ríkjum í myndum þeirra Rogens og Goldbergs. Að gefnu tilefni ætti svo að taka fram að þó að húmorinn sé ef til vill barnalegur, þá er myndin alls ekki við hæfi barna. Langt rifrildi um hver hafi eyðilagt síðasta klámblaðið, vísanir í Rosemary's Baby og Exorcist , Emma Watson að höggva höfuðið af typpastyttu og fleira slíkt er á meðal þess sem boðið er upp á. Svo ekki sé minnst á eiturlyfjaneysluna sem hafin er upp til skýjanna, en líklega hefur heill fótboltavöllur af grasi fuðrað upp við gerð myndarinnar.

Eitt það áhugaverðasta við myndina er einmitt sú staðreynd að allir leika sjálfa sig. Í upphafi myndarinnar er Seth Rogen spurður hvers vegna hann leiki alltaf sömu týpuna. Eftir að hafa séð This is the End veltir maður fyrir sér hvort að Rogen sé yfirhöfuð að leika annan en sjálfan sig. Samspil leikaranna í myndinni er frábært og áhorfandinn trúir því alveg að ef heimsendir væri í nánd myndu þeir bregðast svona við eða á svipaðan hátt. Aukaleikararnir, sem flestir látast á sviplegan hátt, standa sig flestir vel, og er á engan hallað þegar Michael Cera er hrósað fyrir að sýna á sér nýja hlið. Á heildina litið er This is the End vel gerð gamanmynd með áhugaverðri hugmynd og stöðugu flæði brandara sem flestir eru í grófari kantinum.

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson