Víðir Sigurðsson í Kalmar vs@mbl.is Þó íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafi komist í fyrsta skipti í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 2009, þegar keppnin var háð í Finnlandi, náði Ísland ekki sínum besta árangri frá upphafi í þeirri keppni.

Víðir Sigurðsson í Kalmar

vs@mbl.is

Þó íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafi komist í fyrsta skipti í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 2009, þegar keppnin var háð í Finnlandi, náði Ísland ekki sínum besta árangri frá upphafi í þeirri keppni.

Lengst náði Ísland nefnilega í Evrópukeppninni árið 1995, þegar liðið komst í átta liða úrslit og tapaði þar naumlega í tveimur leikjum gegn Englendingum, 1:2 á Laugardalsvellinum og aftur 1:2 í Brighton.

Þeir leikir fóru fram í október 1994, en EM 1995 var síðasta keppnin þar sem ekki var um eiginlega lokakeppni að ræða.

Ekki langt frá undanúrslitunum

Leikirnir við Englendinga voru jafnir og tvísýnir og þróuðust alveg eins. England skoraði snemma, Ísland jafnaði fyrir hlé en Englendingar gerðu sigurmörk í seinni hálfleik beggja leikjanna. Margrét Ólafsdóttir skoraði mark Íslands á Laugardalsvellinum og Ásta B. Gunnlaugsdóttir skoraði jöfnunarmarkið í Brighton. Engu munaði að Ásta kæmi Íslandi yfir í þeim leik, og jafnaði 3:3 samanlagt, þegar hún átti stangarskot í síðari hálfleik.

Ísland var því ansi nálægt því að komast í fjögurra liða úrslitin, en þar tapaði England síðan í tveimur leikjum, heima og heiman, gegn verðandi Evrópumeisturum Þýskalands, sem ekki hafa látið titilinn af hendi síðan og unnið hann fimm sinnum í röð. Ísland endaði í 5.-8. sæti sæti Evrópukeppninnar árið 1995, í sjötta sæti ef árangur liðanna er reiknaður út, en liðið endaði í 11. sæti í Finnlandi fyrir fjórum árum.

Þess ber hinsvegar að geta að Ísland var ein af 30 þjóðum sem tóku þátt í keppninni sem stóð yfir árin 1993 til 1995 en ein af 46 þjóðum sem tóku þátt í keppninni 2007 til 2009.