Landslið Tuttugu knapar verða í landsliðinu sem keppir fyrir hönd Íslands í Berlín í Þýskalandi í ágúst.
Landslið Tuttugu knapar verða í landsliðinu sem keppir fyrir hönd Íslands í Berlín í Þýskalandi í ágúst. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Nýir knapar bættust í landslið Íslands í hestaíþróttum á kynningarfundi í gær. Einu sæti verður haldið opnu fram yfir helgi vegna meistaramóta sem fram fara um helgina.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nýir knapar bættust í landslið Íslands í hestaíþróttum á kynningarfundi í gær. Einu sæti verður haldið opnu fram yfir helgi vegna meistaramóta sem fram fara um helgina.

Heimsleikar íslenska hestsins verða haldnir í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í byrjun ágúst. Landsliðið var kynnt í gær, við athöfn í verslun Líflands. Þar var jafnframt skrifað undir samning um stuðning fyrirtækisins við landsliðið.

„Þrjú gull eru ekki viðunandi árangur. Ég ætlast til þess að við fáum fleiri, þó ekki svo mörg að við þurfum að borga fyrir yfirvigt á heimleiðinni,“ segir Hafliði Þ. Halldórsson, liðsstjóri íslenska landsliðsins, um markmiðin fyrir mótið. Hann kveðst ánægður með valið og telur að liðið geti náð þeim árangri sem stefnt er að.

Knapar hafa unnið sér sæti í landsliðinu með góðum árangri á undanförnum vikum. Í gær bætti liðsstjórinn við Daníel Jónssyni og Sigursteini Sumarliðasyni í fullorðinsflokk, og Gústaf Ásgeir Hinriksson kom inn í ungmennaflokk. Jafnframt var kynnt hvaða kynbótahross verða sýnd fyrir hönd Íslands og knapar þeirra.

„Ég hef farið í margar keppnisferðir með mömmu og pabba, meðal annars á heimsleika,“ segir Gústaf. Hann er sonur hjónanna Huldu Gústafsdóttur og Hinriks Bragasonar. Feðgarnir eru saman í landsliðinu. Hinrik tók þátt í sínum fyrstu heimsleikum fyrir 24 árum og hefur keppt á flestum mótum síðan. Hann telur að mótið í Berlín verði mikil hátíð vegna þess mikla áhuga sem er á íslenska hestinum í Þýskalandi. „Markmið mitt er að fara alla leið, eins og í öllum keppnum.“