Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur: "Kvennalandsliðið hefur náð frábærum árangri á liðnum árum og sýnt að með samstöðu, baráttugleði og þrotlausri vinnu er hægt að ná árangri."

Mánudaginn 20. júlí 1970 keppti Helga stóra systir mín í fyrsta opinbera kvennaleiknum í fótbolta á Íslandi – Reykjavík á móti Keflavík á Laugardalsvelli. Þetta var stór dagur fyrir hana og félaga hennar í Keflavíkurliðinu sem höfðu fram til þessa dags meira lagt stund á handbolta en fótbolta. Og svo fór að Reykjavík vann leikinn 1:0 sem þóttu af fréttum að dæma greinilega ágæt úrslit fyrir okkur Keflvíkinga. Þessi fyrsti opinberi kvennafótboltaleikur fór fram á undan stórleik í karlaboltanum þar sem Ísland vann langþráðan sigur á Norðmönnum 2:0 og okkar ástsæli Hemmi Gunn skoraði bæði mörk Íslands.

Karlaleiknum voru gerð góð skil í öllum blöðum daginn eftir enda sigurinn glæsilegur. En það var líka fjallað um kvennaboltann - í Vísi birtist þessi litla frétt: „Merkisdagur knattspyrnunnar. Fyrsti kvennaleikurinn á Íslandi í knattspyrnu - bæjakeppnin milli Reykjavíkur og Keflavíkur, sem háð var á undan landsleiknum við Noreg í gærkvöldi - var skemmtileg tilbreytni, það var stór gaman að horfa á stúlkurnar í leiknum og þær reykvísku sigruðu verðskuldað með eina markinu, sem skorað var, rétt fyrir leikslok. Eftir leikinn - í hófi Knattspyrnusambands Íslands — þakkaði Albert Guðmundsson, formaður KSÍ, stúlkunum fyrir leikinn og þá ánægju, sem hann veitti áhorfendum. Hann sagði, að þetta hefði verið merkisdagur í íslenzkri knattspyrnusögu - ekki aðeins vegna sigursins gegn Noregi - heldur einnig vegna þessa fyrsta opinbera kvennaleiks - og óskaði þess, að stúlkurnar héldu áfram á sömu braut. Það væri gaman að þessu fyrir þær - þar til harðsperrurnar kæmu fram og vonandi mundu slíkir leikir verða fastur liður í framtíðinni.“

Margt hefur sannarlega breyst í íslenskri kvennaknattspyrnu síðan þetta var. Nú, réttum 43 árum síðar, er íslenska kvennalandsliðið um það bil að hefja þátttöku í annað sinn í úrslitakeppni á stórmóti. Úrslitakeppni Evrópumóts kvennalandsliða - EM 2013 - er að hefjast í Svíþjóð og á Ísland fyrsta leik í dag á móti Noregi. Frábær árangur frábærs landsliðs og stórkostlegt að það skuli vera komið á þennan stað. Vonandi sjáum við karlalandsliðið feta í fótspor kvennalandsliðsins fljótlega.

Kvennalandsliðið hefur náð frábærum árangri á liðnum árum og sýnt að með samstöðu, baráttugleði og þrotlausri vinnu er hægt að ná árangri. Þær hafa verið einstakar fyrirmyndir og fjölmörgum stúlkum hvatning til þess að hefja knattspyrnuiðkun. Það er óneitanlega mikill heiður fyrir hvern leikmann að fá tækifæri til að spila fyrir Íslands hönd og að sama skapi ótrúlega miklu til fórnað af hálfu hvers leikmanns sem þangað kemst. Ég hvet okkur öll til þess að standa með stelpunum - fylgjast með EM 2013 og hvetja okkar lið til sigurs.

Áfram Ísland - áfram stelpurnar okkar.

Höfundur er iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Höf.: Ragnheiði Elínu Árnadóttur